Í tilkynningu til Kauphallar segir að starfsemi félagsins mun skiptast í átta svið sem samanstanda af fjórum kjarnasviðum og fjórum stoðsviðum.
Sölu- og markaðssvið og svið þjónustuupplifunar sem rekin hafa verið sem tvö aðskilin svið verða sameinuð í eitt. Birna Ósk Einarsdóttir, sem gegnt hefur starfi framkvæmdastjóra þjónustuupplifunar, mun leiða sameinað sölu- og þjónustusvið félagsins.

Skýrari áhersla á flugrekstur
Tómas Ingason kemur nýr inn í framkvæmdastjórn félagsins og fer fyrir nýju sviði, stafrænni þróun og upplýsingatækni en í tilkynningunni segir að sviðið byggi á þróun síðustu ára hjá félaginu í þá átt að byggja stöðugt á nýjustu tæknilausnum sem í boði eru til að veita viðskiptavinum framúrskarandi þjónustu og stuðla að sjálfvirknivæðingu og þar með hagræðingu í rekstri.Framkvæmdastjórar hinna átta sviða munu mynda framkvæmdastjórn félagsins en auk Tómasar taka Eva Sóley Guðbjörnsdóttir, nýr framkvæmdastjóri fjármálasviðs, og Árni Hermannsson, framkvæmdastjóri Loftleiða Icelandic, sæti í framkvæmdastjórninni.
Magnea Þórey Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Icelandair Hotels, sem er nú í söluferli, mun við þessa breytingu víkja úr framkvæmdastjórn félagsins. Þá mun Jens Bjarnason framkvæmdastjóri nú einbeita sér að erlendu fjárfestingarverkefni en hann hefur undanfarin tvö ár leitt slíkt verkefni Icelandair Group á Grænhöfðaeyjum.
Í tilkynningunni segir einnig að með skipulagsbreytingunum sé verið að leggja skýrari áherslu á flugrekstur. Unnið verði að frekari samþættingu Air Iceland Connect og VITA við Icelandair Group. Þá hefur stjórn félagsins tekið ákvörðun um að hefja undirbúning á sölu Iceland Travel.