Forsvarsmenn ríkjanna segja þó að ekki eigi að beita hernaðarvaldi gegn Maduro. Um er að ræða Argentínu, Brasilíu, Chile, Hondúras, Panama, Paragvæ, Perú, Kosta Ríka, Kólumbía, Gvatemala og Kanada. Þar að auki hafa mörg vestræn ríki eins og Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Þýskaland og Spánn lýst yfir stuðningi við Guaidó.
Leiðtogar Mexíkó, Gvæjana og Sankti Lúsía vildu þó ekki skrifa undir sameiginlega yfirlýsingu Lima-hópsins.
Í yfirlýsingunni fagna ríkin sem undir hana skrifa því að fleiri ríki hafi lýst yfir stuðningi við Guaidó og þingið. Þá segir þar að mikilvægt sé að halda lýðræðislegar kosningar í Venesúela eins fljótt og auðið sé. Lima-ríkin kalla einnig eftir því að frelsi fjölmiðla verði tryggt á nýjan leik og að pólitískum föngum ríkisstjórnar Maduro verði sleppt. Þar að auki kalla ríkin eftir því að hermenn snúi bakinu við Maduro og lýsi yfir stuðningi við Guaidó.
Sjá einnig: Guðlaugur Þór styður Guaidó
Þá styðja þau tilraunir til að koma í veg fyrir aðgang Maduro að fjármagni og fordæma mannréttindabrot ríkisstjórnar hans. Vísað er sérstaklega til ofbeldis gagnvart mótmælendum. Lima-hópurinn segir einnig að ummæli og aðgerðir „tiltekinna aðila“ hafi verið afbökuð af ríkisstjórn Maduro og stuðningsmönnum hennar til að styðja við stjórn hans.
We applaud Austria, Belgium, Croatia, Czech Rep., Denmark, Estonia, Finland, France, Germany, Iceland, Latvia, Lithuania, Luxembourg, Macedonia, Netherlands, Poland, Portugal, Spain, Sweden & UK for supporting Venezuelan people by recognizing @jguaido today as Interim President. pic.twitter.com/g0oYLY7Qq0
— Secretary Pompeo (@SecPompeo) February 4, 2019
Umdeildar kosningar og tveir forsetar
Maduro sór embættiseið í síðasta mánuði. Það gerði hann eftir umdeildar forsetakosningar sem fram fóru í maí í fyrra.Eftir að stjórnarandstaðan náði meirihluta á þingi árið 2015 skipaði Maduro nýtt þing árið 2017, stjórnlagaþing, og færði flest völd gamla þingsins yfir á það. Þar að auki skipaði hann fjölmarga bandamenn sína í Hæstarétt Venesúela.
Hann sór embættiseið í byrjun ársins eftir kosningar sem stjórnarandstaðan viðurkenndi ekki og eftirlitsaðilar segja ekki hafa farið rétt fram, meðal annars vegna þess að mörgum andstæðingum Maduro var meinað að taka þátt í þeim. Í kjölfar þess lýsti gamla þingið Guaidó starfandi forseta Venesúela.
Guaidó segir að samkvæmt stjórnarskrá Venesúela megi þingið skipa forseta þess sem forseta sé forsetinn ólögmætur. Markmið hans er að mynda starfstjórn og boða til nýrra kosninga. Eftir að þingið tilenfndi hann sem forseta ferðaðist hann um Suður-Ameríku og aflaði stuðnings nágrannaríkja Venesúela.
VIDEO: Opposition leader Juan Guaido thanks supporters for never stopping their fight after more than 20 European countries gave him their support pic.twitter.com/QSiHvRLhyb
— AFP news agency (@AFP) February 5, 2019
Floti olíuskipa á Karíbahafinu
Ríkisstjórn Donald Trump beitti viðskiptaþvingunum gegn Venesúela í síðustu viku. Þær þvinganir koma í veg fyrir að bandarísk fyrirtæki kaupi olíu af Maduro en Bandaríkin eru stærsti viðskiptafélagi ríkisins og hafa keypt rúmlega hálfa milljón tunna af olíu af ríkisstjórn Maduro á degi hverjum.Þess í stað eiga bandarísk fyrirtæki að greiða fyrir olíuna inn á reikninga sem Guidó stjórnar.
Reuters segir flota olíuskipa hafa myndast á Karíbahafinu á undanförnum dögum á meðan fyrirtæki í Bandaríkjunum átta sig á því hvernig þetta fyrirkomulag eigi að ganga fyrir sig.
Maduro á öfluga stuðningsmenn og þá sérstaklega í Rússlandi og í Kína en bæði ríkin hafa varið miklum fjármunum í að tryggja Maduro í sessi. Yfirvöld Mexíkó og Bólivíu hafa einnig lýst yfir stuðningi við Maduro og það hefur Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, sömuleiðis gert.
Erdogan gagnrýndi Evrópuríki í morgun fyrir að styðja Guaidó og sagði Evrópusambandið og Bandaríkin vera að reyna að bola Maduro úr embætti með ofbeldi og bellibrögðum. Samkvæmt AFP fréttaveitunni sagði hann tyrkneskum þingmönnum að um „alþjóðlegt valdarán“ væri að ræða og sagði Maduro hafa verið kosinn með lýðræðislegum hætti.
Fjölmargar vestrænar þjóðir og þjóðir Suður-Ameríku, hafa þó ekki samþykkt að Maduro hafi verið lýðræðislega kjörinn. Eins og fram kemur hér að ofan var helstu andstæðingum hans meinað að taka þátt í kosningunum og einhverjir þeirra voru jafnvel handteknir. Þá var mikið um ásakanir um kosningasvindl.
VIDEO: Venezuelan government supporters hold a rally in front of the country's foreign ministry, where a top diplomat dismisses EU support for opposition leader Juan Guaido pic.twitter.com/9Lvc7KvYDc
— AFP news agency (@AFP) February 5, 2019
Lýðræði, olía eða eitthvað annað?
Ýmsir hafa velt því fyrir sér af hverju ríki heims eru að skipta sér af þróun mála í Venesúela núna og eiga þær vangaveltur að mestu um Bandaríkin. Bandaríkin hafa margsinnis stutt við bakið á einræðisherrum í Suður-Ameríku og hafa þeir jafnvel stutt slíka menn til valda.Því hefur verið haldið fram að Bandaríkin sækist eftir olíu Venesúela en landið situr á stærstu olíulindum heimsins sem vitað er um. Bandaríkin hafa þó verið að kaupa olíu af Venesúela án mikilla vandræða í áratugi og bandarísk olíufyrirtæki eru með starfsemi þar í landi. Ekkert ríki kaupir meiri olíu af Venesúela en Bandaríkin.
Þegar spenna á milli ríkjanna hefur aukist til muna hefur flæði olíunnar, þrátt fyrir allt, haldið áfram.
Aðrir segja Bandaríkin vera að líta til lýðræðis í Suður-Ameríku. Ríkisstjórn Donald Trump lýsti þó yfir stuðningi við Juan Orlando Hernández, forseta Hondúras, eftir mjög svo umdeildar kosningar árið 2017. Þá er fátt sem hefur gefið til kynna að Trump sé mjög andsnúinn einræði og hann vinni hörðum höndum af því að efla lýðræði á heimsvísu.
Gripu gæsina þegar hún gafst
Það er lítið sem gefur til kynna að Bandaríkin hafi staðið að baki tilnefningu þingsins á Guaidó eða séu á einhvern hátt að skipuleggja valdarán í Venesúela. Þess í stað er mun líklegra að ríkisstjórn Trump hafi séð tækifæri til að sporna gegn auknum áhrifum Rússlands og Kína í Suður-Ameríku. Þessi ríki sem eru andstæðingar Bandaríkjanna hafa hvergi meiri áhrif í heimsálfunni en í Venesúela og með brottför Maduro myndi það gerbreytast.Sjá einnig: Snúa sér að Kína og Rússlandi
Undanfarna áratugi hafa ríki Suður-Ameríku færst sífellt fjær Bandaríkjunum en sú þróun hefur að einhverju leiti snúist við á undanförnum árum. Því var haldið fram í Wall Street Journal (Paywall) á dögunum að Bandaríkin hafi einnig snúið augunum að Kúbu, þar sem áhrif Rússa og Kínverja eru einnig mikil.
Að koma Maduro frá völdum í Venesúela myndi koma sér verulega illa fyrir Kúbu sem hefur bæði reitt á olíu og ýmissa þjónustu frá Venesúela. Þannig væri ef til vill hægt að slá tvær flugur í einu höggi.