Körfubolti

Einar Árni: Vona að við fáum að mæta þeim í úrslitakeppninni

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
Einar Árni Jóhannsson þjálfar Njarðvík
Einar Árni Jóhannsson þjálfar Njarðvík vísir/bára
„Vonbrigði að ná ekki að verðlauna fólkinu okkar sem að fjölmennti og studdi frábærlega við bakið á okkur. Stjarnan spilaði bara betur í dag. Við vorum ekki.nálægt okkar besta sóknarlega í dag það verður bara að segja það eins og það er,” sagði Einar Árni Jóhannsson þjálfari Njarðvíkur eftir leik kvöldsins. Einar var skiljanlega svekktur með niðurstöðu leiksins.

Njarðvík tapaði leiknum 84-68 eftir að hafa verið undir allan leikinn.

Eric Katenda náði því afreki að fá dæmdar á sig þrjár villur á rúmum fjórum mínútum í fyrsta leikhluta. Síðan kom hann inn í þriðja leikhluta eftir villuvandræðin og skoraði tíu stig.

„Það er erfitt að vera með einhverjar fullyrðingar um það. Það truflaði okkur samt auðvitað töluvert. Hann var búinn að vera að spila mjög vel í seinustu leikjum og það er mjög súrt að geta bara notað hann í einhverjar fjórar mínútur í fyrri hálfleik.”

Njarðvíkingar voru ekki ánægðir með dómgæsluna í fyrri hálfleik og fékk Einar meiri segja eina tæknivillu. Allir stóru strákarnir hjá Njarðvík voru í smá villuvandræðum í hálfleik en það voru engir Stjörnumenn í villuvandræðum í hálfleik.

„Við vorum komnir í töluverð villuvandræði í fyrri hálfleik. Mario og Óli voru báðir með tvær og síðan Eric með sínar þrjár villur. Á sama tíma fannst okkur ekki auðvelt að komast á vítalínuna. Elvar var duglegur að sækja á körfuna en fékk lítið af villum.”

Njarðvík náðu að minnka þetta vel niður fyrir lokaleikhlutann en síðan misstu þeir Stjörnuna alveg frá sér. Njarðvík skoraði einungis 11 stig í slæmum fjórða leikhluta.

„Við náum þessu á einhverjum tímapunkti niður í 3 stig. Þá setja þeir bara niður stór skot. Brandon setur niður erfið skot og kemur þessu aftur upp í átta stig. Þeir ná bara að hanga á því, síðan þurfum við að taka sénsa í restina þegar við erum að taka fljót þriggja stiga skot. Þar fór leikurinn, hvort við höfum tapað með einu eða fimmtán skiptir engu máli.”

Þið gætuð mætt Stjörnunni aftur í úrslitakeppninni, hvaða áhrif heldur þú að þessi leikur gæti haft á það einvígi?

„Þetta verður vonandi hvatning. Við mætum þeim næst í deildinni 4. mars. Við töluverðan tíma núna til að hvíla okkur og síðan skerpa okkur og komast aftur í gírinn fyrir úrslitakeppnina. Það eru fjórir leikir eftir í deildinni og mikil barátta um fyrstu sætin. Við þurfum að vinna okkur inn gott sæti fyrir úrslitakeppnina til að byrja með. Síðan verðum við bara að mæta af krafti í hana og ég vona að við fáum tækifæri til að mæta Stjörnunni í úrslitakeppninni.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×