Innlent

Segir áhættumat gefa færi á verulegum vexti laxeldis

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá eldiskvíum á Patreksfirði. Byggðin sést í baksýn.
Frá eldiskvíum á Patreksfirði. Byggðin sést í baksýn. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Tekjur þjóðarbúsins af laxeldi gætu margfaldast á næstu árum, miðað við það svigrúm sem áhættumat vísindamanna gefur á auknu sjókvíaeldi. Útflutningsverðmæti eldislax, sem í fyrra nam níu milljörðum króna, gæti þannig sexfaldast og farið upp í fimmtíu til sextíu milljarða króna á ári á næstu fimm árum. Rætt var við stjórnarformann Arnarlax í fréttum Stöðvar 2. 

Umskiptin sem laxeldið er að hafa í einstökum byggðum sjást best á sunnanverðum Vestfjörðum. Eldiskvíar eru komnar út á firði; í höfnum, þar sem orðið var dauflegt um að litast, iðar nú allt af lífi; og nýrisin seiðaeldisstöð er stærsta bygging í sögu fjórðungsins. Áætlað er að fiskeldisfyrirtæki hafi þannig fjárfest á síðustu árum fyrir þrjátíu milljarða króna, bara á Vestfjörðum.

Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.
Og þetta er bara rétt að byrja, miðað við þá vaxtarmöguleika sem stjórnarformaður Arnarlax, stærsta fyrirtækisins, sér í greininni yfir landið í heild. 

„Við verðum að hafa í huga að það eru einungis um það bil tuttugu prósent strandlengjunnar sem eru opin fyrir laxeldi á Íslandi, þar sem Hafrannsóknastofnun telur innan skynsemismarka að stunda laxeldi,“ segir Kjartan Ólafsson.

Hann bendir að áhættumatið sé um 70 þúsund tonn. Framleiðslan hafi verið í kringum tíu þúsund tonn árið 2018. 

„Þannig að það eru gríðarlegir vaxtarmöguleikar.“

Frá seiðaeldisstöð Arctic Fish í Tálknafirði.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Útflutningstekjur af laxi námu 8,9 milljörðum króna á nýliðnu ári, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Kjartan segir að framleiðslan á þessu ári verði allt að 25 þúsund tonn og það geti skilað tuttugu milljarða útflutningstekjum. Hann áætlar að tekjur þjóðarbúsins geti á næstu fimm árum vaxið upp í 50 til 55 milljarða króna á ári.

Sjókvíaeldið situr hins vegar undir harðri gagnrýni þeirra sem óttast um afdrif villta laxins. 

„Það er af og frá, að mínu viti, að hér sé einhver sérstök áhætta á ferð. Við leggjum til grundvallar áhættumat Hafrannsóknastofnunar, vísindamannanna okkar, og burðarþolsmatið. Og innan þess stranga ramma er þegar rúm fyrir verulegan vöxt,“ segir stjórnarformaður Arnarlax. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Segir löngu tímabært að setja lög og reglur um fiskeldi

Áætlað er að tekjur ríkissjóðs af fiskeldi verði einn milljarður króna árið 2023 samkvæmt frumvarpsdrögum sjávarútvegsráðherra. Hátt í tuttugu umsagnir eru um frumvarpið í Samráðsgátt stjórnvalda meðal annars frá Arnarlaxi sem gerir athugasemdir við gjaldið og segir það íþyngjandi og ótímabært. Varaformaður atvinnuveganefndar Alþingis segir löngu tímabært að setja lög og reglur um fiskeldi hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×