Íslenski boltinn

Davíð Kristján seldur til Álasunds

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Davíð Kristján Ólafsson er farinn til Noregs.
Davíð Kristján Ólafsson er farinn til Noregs. vísir/bára
Davíð Kristján Ólafsson, vinstri bakvörður Breiðabliks, hefur verið seldur frá Pepsi-deildarliði Breiðabliks til Álasunds í Noregi sem leikur í norsku 1. deildinni.

Blikar greina frá þessu á heimasíðu sinni en Davíð fór á reynslu til norska liðsins á dögunum og gerði nóg til að heilla forráðamenn þess. Eftir að einu tilboði var hafnað frá Álasundi tóku Blika öðru tilboði norska félagsins.

Davíð Kristján er 23 ára gamall og á að baki 149 leiki með Breiðabliki og tíu mörk í öllum keppnum. Síðasta sumar náði hann sínum 100. leik fyrir Blika í deild og bikar en hann spilaði alla 22 leiki liðsins í Pepsi-deildinni og fimm í bikarnum.

Hjá Álasundi hittir hann þrjá aðra Íslendinga en með liðinu spila þeir Aron Elís Þrándarson, Hólmbert Aron Friðjónsson og Daníel Leó Grétarsson. Adam Örn Arnarson var einnig á mála hjá liðinu en var seldur til Póllands á dögunum.

Áfram heldur að kvarnast úr leikmannahópi Breiðabliks frá síðasta sumari sem náði silfri í deild og bikar en liðið er búið að miss Gísla Eyjólfsson til Mjällby, Willum Þór Willumsson til BATE Borisov og þá er Oliver Sigurjónsson farinn aftur til Bodo/Glimt.

Á móti eru komnir Kwame Quee frá Víkingi Ólafsvík, Þórir Guðjónsson frá Fjölni og Viktor Karl Einarsson frá Värnamo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×