Enski boltinn

Aron Einar og félagar fengu ekki að fara til Tene

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson í bol með mynd af Emiliano Sala.
Aron Einar Gunnarsson í bol með mynd af Emiliano Sala. Getty/Ian Cook
Aron Einar Gunnarsson og félagar hans í Cardiff City unnu mikilvægan sigur í ensku úrvalsdeildinni um helgina og áttu í framhaldinu að fá ferð til Tenerife. Ekkert varð þó af þeirri ferð.

Neil Warnock, knattspyrnustjóri Cardiff City, ákvað að flauta af fjögurra daga æfingaferð liðsins til Kanaríeyjunnar Tenerife.





Cardiff er dottið úr ensku bikarkeppninni og spilar ekki um næstu helgi. Næsti leikur liðsins er því ekki fyrr en 22. febrúar á móti Watford.

Í stað þess að fara með liðið í sólina á Tenerife þá taldi Warnock að það væri betra fyrir leikmenn sína að eyða tíma með fjölskyldum sínum.

Ástæðan er skelfileg lífreynsla allra hjá félaginu eftir að flugvél með nýjan leikmann félagsins, Emiliano Sala, fórst á Ermarsundi á leiðinni til Cardiff.





Cardiff borgaði metupphæð fyrir Emiliano Sala sem var ekki búinn að ná einni æfingu með félaginu þegar hann fórst í flugslysinu.

„Eftir það sem gerðist þá vil ég frekar faðma börnin mín og eyða tíma með konunni. Þetta hafa verið tvær mjög langar vikur,“ sagði Neil Warnock.

Emiliano Sala var 28 ára gamall og hafði farið til Nantes til að kveðja sína gömlu liðsfélaga. Hann átti að mæta á sína fyrstu æfingu daginn eftir. Lík Emiliano Sala fannst í síðustu viku en lík flugmannsins hefur enn ekki fundist.

„Ég hef aldrei gengið í gegnum neitt svona í mínu lífi og ég hef nú séð flest á minni ævi. Allir mínir leikmenn eru að hugsa um það sem gerðist og þá er fjölskyldan mikilvægari en fótboltinn er það ekki?,“ sagði Neil Warnock.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×