Innlent

Segir ólíklegt að liðsauki Miðflokksins hafi áhrif á skipan þingnefnda

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar Vísir/Vilhelm
Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, telur ekki að ganga Karls Gauta Hjaltasonar og Ólafs Ísleifssonar, fyrrum þingmanna Flokks fólksins og síðar óháðra þingmanna, til liðs við Miðflokkinn muni hafa áhrif á ásýnd Alþingis með tilliti til skipan nefnda. Þetta kom fram í samtali Loga við fréttastofu í dag.

„Ég held að þetta muni ekki breyta neinu á þinginu í sjálfu sér. Ég held að þetta muni ekki hafa í för með sér neinar breytingar á nefndum eða öðru slíku.“

Fyrr í dag var haft eftir Ólafi Ísleifssyni að vistaskiptin gætu kallað á endurskipulagningu í nefndum þingsins þar sem Miðflokkurinn er nú orðinn stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, stærri en Samfylkingin sem áður var stærst stjórnarandstöðuflokka.

Þá var greint frá því fyrr í dag að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sendi öllum flokksmönnum sínum bréf, þar  sem meðal annars kom fram að hann muni fara fram á að kosið verði aftur í nefndir Alþingis.

Aðspurður út í þessar fyrirætlanir Sigmundar Davíðs segist Logi þó telja minni líkur en meiri á því að kosið verði á ný í þingnefndir.

„Það er auðvitað búið að gera samkomulag í þingbyrjun og það þarf 22 þingmenn til þess að taka það upp,“ segir Logi og bætir við að hann sjái ekki fyrir sér að svo fjölmennur hópur þingmanna sem séu sama sinnis og Miðflokksmenn sé til staðar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×