Íslenski boltinn

Frá Halla og Ladda í Pepsi Max

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Halli og Laddi voru aðalmennirnir í auglýsingu fyrstu aðalstyrktaraðila efstu deildar í knattspyrnu árið 1987.
Halli og Laddi voru aðalmennirnir í auglýsingu fyrstu aðalstyrktaraðila efstu deildar í knattspyrnu árið 1987. Mynd/Auglýsing Samvinnuferða-Landsýn
Efsta deild karla og kvenna í knattspyrnu fengu nýtt nafn í gær en í sumar munu deildirnar heita Pepsi Max deildirnar.

Það eru liðin meira en þrjátíu ár síðan að fyrirtæki urðu fyrst aðalstyrktaraðilar Íslandsmótsins í knattspyrnu og fengu deildirnar skírðar eftir sér.

Fyrsta fyrirtækið var Samvinnuferðir-Landsýn sem styrkti deildina sumurin 1987 og 1988. Samvinnuferðar-Landsýn mótið þótti reyndar svo óþjált að það var stytt í SL-mótið en fullt nafn var „Íslandsmótið 1. deild 1987/SL mótið“

Ellert B. Schram, formaður Knattspyrnusambands Íslands, Halldór B. Jónsson, formaður Samtaka fyrstu deildarfélaga og Helgi Jóhannsson, framkvæmdastjóri Samvinnuferða Landsýnar, undirrituðu tímamótasamning 13. apríl 1987 í þá nýinnréttuðum og glæsilegum húsakynnum Knattspyrnusambandsins.





„Ég vonast til þess að þetta samkomulag verði Íslandsmótinu til eflingar og sömuleiðis knattspyrnunni í heild. Ætlunin er vitanlega sú að báðir aðilar hafi hag af þessum samningi," sagði Ellert B. Schram, formaður KSÍ, í viðtali við blaðamann DV eftir undirritun samkomulagsins í apríl 1987.  



Samvinnuferðir greiddu Íslandsmeisturunum 400.000 krónur þetta fyrsta sumar, liðið sem varð í öðru sæti fékk 100.000 og þriðja sætið gaf 50.000. Samvinnuferðir verðlaunuðu líka þau félög sem skoruðu mest í hverri umferð en markahæsta félag hverrar umferðar, fékk þannig í sinn hlut 7.500 krónur.

Auglýsingin fyrir SL-mótið vakti líka talsverða athygli en þar voru mættir þeir Halli og Laddi eins og sjá má hér fyrir ofan.

Á þeim 32 árum sem eru liðin hefur nafn deildarinnar breyst tíu sinnum og nú síðasta úr Pepsi-deildinni í PepsiMax-deildina í gær. Það muna kannski ekki allir eftir öllum nöfnunum eða nafnabreytingunum en allan listann má sjá hér fyrir neðan.

Styrktaraðilar efstu deildar í knattspyrnu:

Samvinnuferðar-Landsýn mótið, SL-mótið (1987-88)

Hörpudeildin (1989-1991)

Samskipadeild (1992)

Getraunadeild (1993)

Trópídeild (1994)

Sjóvá-Almennra deild (1995-1997)

Landssímadeild (1998-2000)

Símadeild (2001-2002)

Landsbankadeild (2003-2008)

Pepsideild (2009-2018)

PepsiMax-deild (2019-2021)










Fleiri fréttir

Sjá meira


×