Skoðun

Meinlokur 

Guðrún Vilmundardóttir skrifar
Ég er á ferðalagi um Japan. Það er fagurt og framandi. Les dásamlega bók um japanska matargerð, Sushi and beyond, en þar tengir höfundur matseld og hráefni við landafræði, menningu og sögu.

Toilettin eru jafn tæknileg og ég hafði heyrt, gjarna framleidd af Panasonic, hvergi ruslafötur heldur sér hver um sig, veitingastaðir margir pínulitlir og setið á móti kokkunum í eldhúsinu – og gífurleg ást á París. Ég kom inn á kaffihús þar sem á sjónvarpi í horninu gekk myndband með sýnishornum frá kaffihúsalífi á vinstri bakkanum, frá því snemma á níunda áratugnum af hárgreiðslunum að dæma.

Mér skilst að það sé til sérstakt hugtak yfir Parísarmelankólíu, því meira að segja París stendur víst ekki alltaf undir slíkum væntingum.

Bifreiðar eru minni en maður á að venjast, stundum er einsog búið sé að skera af þeim húdd og skott. Á göngu um fallegt lágreist íbúða­hverfi í Kyoto vakti athygli mína að í bílskýlum fyrir framan húsin var bílunum lagt alveg upp við annan vegginn, þannig að bara var hægt að komast út hægra megin.

Hver hefur ekki lent í því að þurfa að klöngrast út farþegamegin, en mér fannst þetta óneitanlega kostulegt fyrirkomulag og hafði orð á því við ferðafélaga minn sem er kunnugur staðháttum. Já, merkilegt segir hann, alinn upp í Reykjavík einsog ég.

Og svo nokkrum andartökum síðar: Þú manst að það er vinstri umferð hérna.

Hefði ég ekki orðað undrun mína upphátt og hugsað hugsunina til enda, hefði ég komið heim með þá hugmynd að japanskir bílstjórar kysu sýstematískt að loka sig inni í bílunum og klöngrast út yfir farþegasætið.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×