Íslenski boltinn

Vallarstjóri ársins missti grasið sitt og fékk í staðinn gervigras

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Magnús Valur Böðvarsson og Ellert Jón Þórarinsson.
Magnús Valur Böðvarsson og Ellert Jón Þórarinsson. Mynd/SÍGÍ
Ellert Jón Þórarinsson og Magnús Valur Böðvarsson voru valdir vallarstjórar ársins á aðalfundi Samtaka íþrótta- og golfvallastarfsmanna á Íslandi sem var haldinn í golfskála Keilis á dögunum. KSÍ segir frá.

Ellert Jón Þórarinsson starfar á golfvellinum hjá Golfklúbbnum í Brautarholti en Magnús Valur Böðvarsson er vallarstjórinn á Kópavogsvelli.

Magnús Valur hlaut því verðlaunin fyrir síðasta árið þar sem náttúrulegt gras var á Kópavogsvellinum en í vetur var skipt yfir í gervigrasið í Smáranum.

Kópavogsvöllur bættist þar í hóp margra leikvalla í Pepsi-deildinni sem hafa skipt frá grasi yfir í gervigras. Víkingsvöllur er líka að gangast undir samskonar breytingu í vetur en í fyrra var það Fylkisvöllurinn. Áður höfðu Stjarnan og Valur skipt yfir í gervigras á aðalleikvangi sínum.

Magnús Valur var skiljanlega ekki sáttur þegar fréttist fyrst af ákvörðun bæjarráðs í Kópavogi og kallaði það „svartasti daginn í sögu Kópavogs“ en í samtali við fjölmiðla lofaði hann jafnframt að hugsa vel um grasið á síðasta sumri þess.





Magnús Valur stóð heldur betur við það og endapunkturinn var að hann var valinn vallarstjóri ársins í flokki knattspyrnuvalla.

Ellert Jón Þórarinsson er líka nýr maður í stjórn SÍGÍ en hann var meðstjórnandi og varamaður á síðasta ári. Steindór Kr. Ragnarsson er áfram formaður SÍGÍ og Jóhann G. Kristinsson er áfram gjaldkeri. Einar Gestur Jónasson og Birgir Jóhannsson eru báðir áfram í stjórninni.

Fyrir ári síðan var Kristinn V. Jóhannsson, vallarstjóri Laugardalsvallar, valinn vallarstjóri ársins í flokki knattspyrnuvalla en Bjarni Þór Hannesson, vallarstjóri hjá Golfklúbbnum Keili, í flokki golfvalla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×