Innviðir eru í sigti erlendra fjárfesta Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar 20. febrúar 2019 08:00 Baldvin Björn Haraldsson og Ásgeir Á. Ragnarsson stofnuðu stofuna, sem síðvar varð BBA Legal, árið 1998. Sumum kollegum þótti undarlegt að sérhæfa sig einungis í fyrirtækjalögfræði. Fréttablaðið/Anton Brink Fá eru þau mál, er varða umsvif erlendra fyrirtækja og fjárfesta á Íslandi, sem lögmannsstofan BBA Legal kemur ekki að. Verulegur hluti tekna BBA Legal kemur frá útlöndum en stofan var sú fyrsta hér á landi til að sérhæfa sig í fyrirtækjaráðgjöf þegar hún var stofnuð fyrir rétt rúmum 20 árum. Baldvin Björn Haraldsson, einn stofnenda og eigenda BBA Legal, rekur sögu stofunnar í ýtarlegu viðtali við Markaðinn, og sókn hennar í orkumálum en BBA Legal hefur meðal annars verið falið að semja heildstæða jarðvarmalöggjöf í Djíbútí fyrir stjórnvöld þar í landi. Baldvin segir erlenda fjárfesta hafa sýnt íslenskum innviðaverkefnum mikinn áhuga og nefnir stækkun flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, Borgarlínuna og nýja Laugardalsvöllinn. Stjórnvöld þurfi að vera opnari gagnvart einkafjárfestingu í innviðum, bæði innlendri og erlendri. Þá segir hann að breyta þurfi lagaumgjörðinni þannig að eignarhald lögmannsstofa lúti sömu lögmálum og eignarhald annarra fyrirtækja. Núverandi löggjöf hamli því að íslenskar lögmannsstofur geti stækkað og boðið ráðgjöf á fleiri sviðum. Þegar Baldvin Björn og Ásgeir Á. Ragnarsson héldu til náms erlendis, Baldvin til Frakklands og Ásgeir til Bandaríkjanna, hétu þeir því að þegar heim væri komið myndu þeir stofna lögmannsstofu sem sérhæfði sig í fyrirtækjaráðgjöf. Á þeim tíma var engin stofa sem sérhæfði sig í fyrirtækjalögfræði og Baldvin segir að stofan, sem þeir stofnuðu í október 1998 og síðar varð BBA Legal, hafi því verið nýsköpunarfyrirtæki í vissum skilningi. „Sumum kollegum okkar þótti þetta verulega undarleg viðskiptahugmynd hjá okkur. Einhverjir fengu hreinlega hláturskast þegar við sögðum frá þessu, svo fráleitt fannst þeim að hægt væri að reka lögmannsstofu með þessum hætti. Á þessum tíma voru margir einyrkjar og litlar lögmannsstofur sem einblíndu á innheimtumál, skilnaðarmál, skaðabótamál og málflutning. Mikill minnihluti verkefna sneri að fyrirtækjalögfræði,“ segir Baldvin Björn. Baldvin og Ásgeir keyptu efstu hæðina í hinum svokallaða Stóra turni í Kringlunni undir stofuna og ekkert var til sparað. Stofan fékk nafnið IMA sem stóð fyrir Íslenskur málflutningur og alþjóðaráðgjöf.„Við keyptum hæðina og létum innrétta hana í Boston Legal-stíl. Öll húsgögnin voru úr mahóní-viði, stólarnir úr bláu flaueli og grænir leslampar stóðu á borðunum. Við vildum vera spikk og span, klæddum okkur í jakkaföt og bindi, settum auglýsingu í blaðið um opnun stofunnar og biðum eftir því að síminn hringdi. Eftir nokkra tíðindalausa daga hélt ég að síminn væri bilaður!“ segir Baldvin. Fyrsti viðskiptavinurinn utan vina og vandamanna var Olgeir Kristjánsson, þáverandi forstjóri EJS. Hann hafði séð auglýsinguna og vildi skoða hvað stofan hefði fram að færa. Í kjölfarið batnaði verkefnastaðan til muna. Stofan tapaði þó töluverðu fé, alls 19 milljónum króna, á fyrsta rekstrarárinu 1999 en það er eina árið sem stofan hefur skilað rekstrartapi. „Ég man að tengdapabbi endurskoðaði fyrirtækið á fyrsta árinu og var allt annað en ánægður með ársreikninginn. Það var því eins gott að spýta í lófana. Þetta var raunar erfiður róður allt til ársins 2000, þegar Ásberg Pétursson eigandi Fiskverkunar Ásbergs, keypti húsnæðið af okkur. Við græddum aðeins á þessum viðskiptum og gátum fleytt rekstrinum áfram,“ segir Baldvin. Stofan flutti haustið 2001 í Skógarhlíð þar sem endurskoðunarfyrirtækið PwC var og er til húsa. Samstarf tókst á milli fyrirtækjanna og IMA tók upp nafnið Landwell. „Þetta var mikilvægt skref vegna þess að á árinu 2002 hófst vinna við að aðgreina ráðgjafarstarfsemi PwC á alþjóðavísu frá endurskoðunarhluta félagsins. Þessi uppskipting var hluti af alþjóðlegu verkefni sem náði til meira en 60 landa. Við vildum tryggja að lögfræðileg ráðgjöf við uppskiptingu íslenska hlutans lenti hjá okkur, og þurftum því að gera okkur svolítið breiða. Við sögðumst vera með sérfræðinga á flestum sviðum, en vorum í raun bara þrír lögfræðingar, við Ásgeir og Einar Baldvin Árnason. Það er stundum heppilegt að heita tveimur nöfnum, því Einar Baldvin gat þannig verið yfir tveimur sviðum, stundum sem Einar og stundum sem Baldvin. Við hefðum aldrei fengið þetta verkefni ef þeir hefðu komið til landsins og séð hversu fámenn við vorum,“ segir Baldvin.„Það þarf stundum að setja út kassann til að ná árangri. Þetta verkefni var mikil prófraun fyrir okkur, enda áttum við þarna í samstarfi við sumar af stærstu og virtustu lögmannsstofum heims. Við höfum svo átt í afar góðu samstarfi við þessar stofur síðan.“ Landwell varð BBA Legal árið 2006, þá orðin þriðja stærsta lögmannsstofa landsins og enn sú eina sem sérhæfði sig eingöngu í fyrirtækjalögfræði. Umsvifin jukust í takt við uppganginn í hagkerfinu en þegar fjármálakrísan skall á haustið 2008 var framtíðin tvísýn. „Það voru mörg símtölin þessa mánuðina. Ég bjó úti í London á þeim tíma og var að koma útibúinu okkar þar í gang. Staðan var sú að allir stærstu viðskiptavinir okkar, íslensku bankarnir, voru að verða gjaldþrota. Þegar þeir féllu varð eðlilega mikill órói og manni fannst ekki útilokað að við færum einnig á hliðina,“ segir Baldvin. Raunin var hins vegar önnur því fram undan var endurskipulagning fjármálakerfisins. BBA Legal hefur aldrei haft meira að gera en á árunum eftir fjármálahrunið. Stofan flutti skrifstofu sína í turninn á Höfðatorgi árið 2009 og tryggði sér efstu skrifstofuhæðina með útsjónarsemi. „Við töldum okkur hafa tryggt efstu tvær hæðirnar í turninum en þegar það átti að ganga frá samningunum þá kom í ljós að búið var að semja við FL Group um að taka þrjár efstu hæðirnar. Okkur var boðin 16. hæðin fyrir neðan en við sömdum þannig að ef FL Group gæti af einhverjum ástæðum ekki staðið við samningana sína þá fengjum við efstu hæðina. Síðan fór sem fór fyrir FL Group og við áttum að fá efstu hæðina en þá var ákveðið að ráðstafa henni í lúxusíbúðir. Við fengum næstefstu og höfum verið þar síðan.“Vertíðin endist aldrei BBA Legal vann í mörgum málum tengdum endurskipulagningu fjármálakerfisins, meðal annars fyrir þrotabú Glitnis og kröfuhafa í slitameðferð Landsbankans. Þá rak stofan mál fyrir spænska bankann Aresbank sem átti um 20 milljarða króna í peningamarkaðssjóðum bankanna. Snerist málið um hvort sjóðirnir væri skilgreindir sem innistæður eða ekki og fór fyrir EFTA-dómstólinn. Stærstu verkefnin voru hins vegar þau sem BBA Legal rak fyrir breska ríkið og sextán hollensk sveitarfélög. „Neyðarlögin tryggðu innistæðum í erlendum útibúum íslensku bankanna forgang í slitameðferð gömlu bankanna, þannig að þær væru því sem næst jafnstæðar innstæðum íslensks almennings, sem færðust í nýju bankana. Þessi forgangur innstæðna þýddi að talsvert minna fékkst greitt upp í almennar kröfur. „Þessari löggjöf var mótmælt af hálfu stóru erlendu bankanna sem töldu neyðarlögin vera afturvirka löggjöf sem sett hafi verið á síðustu stundu. Okkar hlutverk var að verja neyðarlögin og tryggja það að þessar 300 þúsund bresku innstæður á Icesave reikningunum sem breska ríkið tók yfir nytu forgangs. Heildarkrafa breska ríkisins var yfir 1.000 milljarðar og ég veit ekki betur en að þetta sé stærsta krafa sem deilt hafi verið um í íslensku dómsmáli. Mál hollensku sveitarfélaganna sem lögðu peninga inn á Icesave var af sama meiði,“ segir Baldvin.Eigendurnir ásamt Elísabetu Ingunni Einarsdóttur, framkvæmdastjóra BBA Legal.Fréttablaðið/Anton brinkBaldvin rifjar upp fund sem boðaður var með forsvarsmönnum hollensku sveitarfélaganna þegar málareksturinn var í undirbúningi. „Við Katrín Helga Hallgrímsdóttir fórum til Hollands til að halda fyrirlestur um hvernig við myndum verja málstað sveitarfélaganna fyrir íslenskum dómstólum. Lögmaður frá Stibbe, hollensku lögmannsstofunni sem vann með okkur í málinu, hafði sagt að þetta yrði líklega erfiðasti fyrirlestur sem við hefðum haldið, enda var málið gríðarlega pólitískt í Hollandi. Við áttum að búa okkur undir margar og erfiðar spurningar. Eftir kynninguna var hins vegar þögn, það kom engin spurning. Ég spurði lögmanninn hvernig stæði á þessu og hann sagði að sveitarstjórnarkosningum væri nýlokið og að búið væri að kjósa út alla þá sem höfðu verið við stjórnvölinn. Þeir sem voru á fundinum vissu sem sagt sáralítið um málið. Ég er ekki viss um að Íslendingar geri sér grein fyrir hversu miklar pólitískar afleiðingar þetta mál hafði í Hollandi.“Endurskipulagning fjármálakerfisins kláraðist að mestu leyti árið 2016. Voru það viðbrigði? „Svona vertíð endist aldrei. Við vissum það og ræddum margoft um að verkefnaflæðið myndi sjatna. Í þó nokkur ár eftir hrunið var stór hluti viðskiptalífsins í gríðarlegri baráttu til þess að koma í veg fyrir að fyrirtæki og einstaklingar færu á hausinn og aðrir voru að verjast kröfum um fangelsisvist. Þetta var alveg ótrúleg barátta sem mér finnst að hafi að mestu leyti lokið á árinu 2016, þótt auðvitað sé baráttan að einhverju leyti enn í gangi. Á árinu 2016 datt botninn svolítið úr, hvað okkar verkefni snerti. Stærstu slagirnir voru að klárast og okkar fólk var alveg búið á því eftir ótrúlega keyrslu. Þetta var í fyrsta sinn í mörg ár þar sem allir gátu tekið gott sumarfrí,“ segir Baldvin.Gríðarlegur áhugi erlendis á innviðum Helstu verkefni BBA Legal snúa að ráðgjöf í tengslum við kaup og sölu á fyrirtækjum, fjármögnun og almennri fyrirtækjaráðgjöf. Spurður hvaða tækifæri hann sjái fram undan nefnir Baldvin inviðaverkefni. „Við sjáum að Ísland er komið aftur á kortið hjá innviðafjárfestum. Margir sem við höfum átt í samskiptum við hafa áhuga á stækkun flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, Borgarlínunni og nýja Laugardalsvellinum svo dæmi séu tekin,“ segir Baldvin. „Áhuginn er gríðarlegur, við fáum fullt af fyrirspurnum erlendis frá vegna innviðaverkefna. Þetta eru innviðafjárfestar, stór verktakafyrirtæki og stórir rekstraraðilar á samgönguvirkjum. Stór alþjóðleg fyrirtæki.“ Baldvin segir að íslensk stjórnvöld, bæði ríkisvaldið og sveitarfélög, þurfi að vera opnari gagnvart einkafjárfestingu í innviðum og aðkoma erlendra fjárfesta geti haft mikinn þjóðfélagslegan ábata í för með sér. „Þetta eru fyrirtæki og fjárfestar sem búa yfir gríðarlegri sérþekkingu á sínu sviði og tengingum úti um allan heim. Þegar kemur að því að reka stór mannvirki eða samgönguvirki þarf þekkingu, fjármagn, alþjóðleg tengsl og tæknilausnir sem við búum ekki endilega yfir á Íslandi. Ef við viljum að vel sé staðið að stórfelldri innviðauppbyggingu þá er mikilvægt að leita þekkingar út fyrir landsteina og fá erlend fyrirtæki til samstarfs við íslenska aðila. Ég held að við séum stundum of viðkvæm fyrir því að erlendir aðilar standi að mikilvægri uppbyggingu hér – við ættum að horfa frekar á að samningagerð og lagaumgjörð utan um slík verkefni sé í lagi,“ segir Baldvin Björn. Hann tekur dæmi um samningana varðandi uppbyggingu á Hörpu en BBA Legal sá um samningagerð í kringum verkefnið. „Harpa var boðin út og einkafjárfestar hugðust eiga og reka Hörpuna með styrkjum frá ríki og borg í 35 ár. Eftir að samningar höfðu verið gerðir, urðu allir hlutaðeigandi gjaldþrota, þar á meðal bankinn sem fjármagnaði bygginguna. Einkaframtak í innviðauppbyggingu hlaut kannski svolítið ótímabæran dauðdaga í kjölfarið finnst mér. Það gleymist algerlega í umræðunni að verkefnið fór á hliðina vegna alþjóðlegrar fjármálakrísu,“ segir Baldvin og nefnir að BBA Legal hafi barist fyrir því að koma vanefndaákvæði inn í samningana sem gerði yfirvöldum kleift að yfirtaka Hörpu á hagstæðu verði. Umrædd ákvæði hafi sparað yfirvöldum verulegar fjárhæðir, sennilega 4-6 milljarða króna. „Það sem skipti mestu máli í þessum efnum, hvort sem um er að ræða erlenda eða innlenda fjárfesta, er að lagaramminn sé góður og að rétt sé búið um hnútana þannig að ríki og sveitarfélög geti gripið til úrræða ef illa fer.“ Löggjöfin hamlar lögmannsstofum Baldvin segir lagaumgjörðina í kringum lögmannsstofur afturhaldssama. Furðulegt sé að enn geti einungis lögmenn átt lögmannsstofur, þegar lögmannsstörf felist að mestu leyti í hefðbundinni ráðgjöf. Þetta sé að breytast víða erlendis. „Mér finnst ekki laust við að hluti stéttarinnar taki sig heldur hátíðlega. Þegar upp er staðið erum við ráðgjafar. Umgjörðin er hins vegar þannig í dag að þú mátt ekki eiga lögmannsstofu á Íslandi nema hafa réttindi til málflutnings og í raun má varla starfa á lögmannsstofu nema vera með lögmannsréttindi. Lögmannafélagið hefur til dæmis að undanförnu gert athugasemdir við að framkvæmdastjórar á lögmannsstofum séu ekki með lögmannsréttindi. Ég hefði haldið að Lögmannafélagið ætti að einbeita sér að mikilvægari hlutum sem eru lögmannastéttinni til hagsbóta. Við erum til dæmis með frábæran framkvæmdastjóra, Elísabetu Einarsdóttur, sem rekur fyrirtækið með miklum myndarbrag. Það er fráleitt að framkvæmdastjórar lögmannsstofa geti ekki átt hlut í þeim nema þeir hafi réttindi til málflutnings.“Hvaða ábata hefði það í för með sér að breyta umgjörðinni og leyfa öðrum en lögmönnum að eiga í lögmannsstofum? „Þetta snýst ekki einungis um ábata, heldur að stéttin átti sig á því að lögmannsstofur eru fyrirtæki og eiga að lúta lögmálum sem slík. Það er svo einnig ljóst að þessi löggjöf hamlar því að lögmannsstofur geti stækkað og boðið ráðgjöf á fleiri sviðum. Í dag eru stóru endurskoðunarfyrirtækin að byggja upp einhverjar af stærstu lögmannsstofum í heimi, í krafti stærðar sinnar á ráðgjafar- og endurskoðunarsviði. Við sjáum einnig uppbyggingu verkfræðistofa hér á landi, sem eru ekki undirorpnar slíkri löggjöf. Það þarf að eiga sér stað framþróun í eignarhaldi á lögmannsstofum svo þær séu samkeppnishæfar. Menn eru svolítið á afturlöppunum hvað þetta varðar hér heima.“ Birtist í Fréttablaðinu Mest lesið Einföld leið til að nýta hugmyndavinnu oftar Atvinnulíf Sektuð fyrir að segjast vera best Neytendur Að kúpla okkur frá vinnu um jólin Atvinnulíf Bölvað basl á Bond Viðskipti erlent Gervigreindin sögð „bjargvættur“ jarðgassiðnaðarins Viðskipti erlent Grýlan sem segir vekjaranum að grjóthalda kjafti Atvinnulíf Innkalla sviðasultu vegna gruns um listeríu Neytendur Kilroy hafi veitt ferðamönnum rangar upplýsingar Neytendur Halda áfram bitcoin-braski þrátt fyrir samkomulag við AGS Viðskipti erlent „Langstærsta“ vikan í sögu Ölgerðarinnar Viðskipti innlent Fleiri fréttir „Langstærsta“ vikan í sögu Ölgerðarinnar Nefna fimm veitingastaði að baki „gervikjarasamningi“ Raforka til gagnavera snarminnkað Þekktir netþrjótar réðust á kerfi Wise Discover hefur flug milli München og Íslands Hærri barnabætur og ný gjöld á nikótínvörur á nýju ári Hluthafarnir samþykkja samruna Marels við JBT Sekta þau sem ekki greiða rétt fargjald um fimmtán þúsund krónur Elma Sif til Stika Solutions Baldvin sagði upp 99 manns sem mættu ekki á morgunfund Standa vörð um bílastæði viðskiptavina Kringlunnar Vonar að allir pakkar berist til þeirra fyrir jól Kortleggja tómar íbúðir í samstarfi við sveitarfélög Jóna Björk tekur við Garðheimum Segja son og tengdadóttur Reynis ekki koma nálægt Mannlífskaupum EastJet flýgur til Basel og Lyon Margrét áfram rektor á Bifröst Ingibjörg Þórdís til Elko Fimm mætt í Kauphöllina RÚV sker sér stærri sneið af auglýsingakökunni Ársverðbólga óbreytt á milli mánaða Tómar íbúðir á landinu nú um 10 þúsund Keppinautar eigi ekki að opna bækur sínar hver gagnvart öðrum Segir kaupverðið á Mannlífi ekki hátt Hætta í stjórn vegna yfirvofandi kaupa á Mannlífi Heimkaup undir hatt Samkaupa Leggja nýjan jarðstreng til Súðavíkur Heimildin að ganga frá kaupum á Mannlífi Lykilstjórnendur fá skell vegna tugmilljóna hagnaðar Segir eðlilegar skýringar á hæsta raforkuverðinu Sjá meira
Fá eru þau mál, er varða umsvif erlendra fyrirtækja og fjárfesta á Íslandi, sem lögmannsstofan BBA Legal kemur ekki að. Verulegur hluti tekna BBA Legal kemur frá útlöndum en stofan var sú fyrsta hér á landi til að sérhæfa sig í fyrirtækjaráðgjöf þegar hún var stofnuð fyrir rétt rúmum 20 árum. Baldvin Björn Haraldsson, einn stofnenda og eigenda BBA Legal, rekur sögu stofunnar í ýtarlegu viðtali við Markaðinn, og sókn hennar í orkumálum en BBA Legal hefur meðal annars verið falið að semja heildstæða jarðvarmalöggjöf í Djíbútí fyrir stjórnvöld þar í landi. Baldvin segir erlenda fjárfesta hafa sýnt íslenskum innviðaverkefnum mikinn áhuga og nefnir stækkun flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, Borgarlínuna og nýja Laugardalsvöllinn. Stjórnvöld þurfi að vera opnari gagnvart einkafjárfestingu í innviðum, bæði innlendri og erlendri. Þá segir hann að breyta þurfi lagaumgjörðinni þannig að eignarhald lögmannsstofa lúti sömu lögmálum og eignarhald annarra fyrirtækja. Núverandi löggjöf hamli því að íslenskar lögmannsstofur geti stækkað og boðið ráðgjöf á fleiri sviðum. Þegar Baldvin Björn og Ásgeir Á. Ragnarsson héldu til náms erlendis, Baldvin til Frakklands og Ásgeir til Bandaríkjanna, hétu þeir því að þegar heim væri komið myndu þeir stofna lögmannsstofu sem sérhæfði sig í fyrirtækjaráðgjöf. Á þeim tíma var engin stofa sem sérhæfði sig í fyrirtækjalögfræði og Baldvin segir að stofan, sem þeir stofnuðu í október 1998 og síðar varð BBA Legal, hafi því verið nýsköpunarfyrirtæki í vissum skilningi. „Sumum kollegum okkar þótti þetta verulega undarleg viðskiptahugmynd hjá okkur. Einhverjir fengu hreinlega hláturskast þegar við sögðum frá þessu, svo fráleitt fannst þeim að hægt væri að reka lögmannsstofu með þessum hætti. Á þessum tíma voru margir einyrkjar og litlar lögmannsstofur sem einblíndu á innheimtumál, skilnaðarmál, skaðabótamál og málflutning. Mikill minnihluti verkefna sneri að fyrirtækjalögfræði,“ segir Baldvin Björn. Baldvin og Ásgeir keyptu efstu hæðina í hinum svokallaða Stóra turni í Kringlunni undir stofuna og ekkert var til sparað. Stofan fékk nafnið IMA sem stóð fyrir Íslenskur málflutningur og alþjóðaráðgjöf.„Við keyptum hæðina og létum innrétta hana í Boston Legal-stíl. Öll húsgögnin voru úr mahóní-viði, stólarnir úr bláu flaueli og grænir leslampar stóðu á borðunum. Við vildum vera spikk og span, klæddum okkur í jakkaföt og bindi, settum auglýsingu í blaðið um opnun stofunnar og biðum eftir því að síminn hringdi. Eftir nokkra tíðindalausa daga hélt ég að síminn væri bilaður!“ segir Baldvin. Fyrsti viðskiptavinurinn utan vina og vandamanna var Olgeir Kristjánsson, þáverandi forstjóri EJS. Hann hafði séð auglýsinguna og vildi skoða hvað stofan hefði fram að færa. Í kjölfarið batnaði verkefnastaðan til muna. Stofan tapaði þó töluverðu fé, alls 19 milljónum króna, á fyrsta rekstrarárinu 1999 en það er eina árið sem stofan hefur skilað rekstrartapi. „Ég man að tengdapabbi endurskoðaði fyrirtækið á fyrsta árinu og var allt annað en ánægður með ársreikninginn. Það var því eins gott að spýta í lófana. Þetta var raunar erfiður róður allt til ársins 2000, þegar Ásberg Pétursson eigandi Fiskverkunar Ásbergs, keypti húsnæðið af okkur. Við græddum aðeins á þessum viðskiptum og gátum fleytt rekstrinum áfram,“ segir Baldvin. Stofan flutti haustið 2001 í Skógarhlíð þar sem endurskoðunarfyrirtækið PwC var og er til húsa. Samstarf tókst á milli fyrirtækjanna og IMA tók upp nafnið Landwell. „Þetta var mikilvægt skref vegna þess að á árinu 2002 hófst vinna við að aðgreina ráðgjafarstarfsemi PwC á alþjóðavísu frá endurskoðunarhluta félagsins. Þessi uppskipting var hluti af alþjóðlegu verkefni sem náði til meira en 60 landa. Við vildum tryggja að lögfræðileg ráðgjöf við uppskiptingu íslenska hlutans lenti hjá okkur, og þurftum því að gera okkur svolítið breiða. Við sögðumst vera með sérfræðinga á flestum sviðum, en vorum í raun bara þrír lögfræðingar, við Ásgeir og Einar Baldvin Árnason. Það er stundum heppilegt að heita tveimur nöfnum, því Einar Baldvin gat þannig verið yfir tveimur sviðum, stundum sem Einar og stundum sem Baldvin. Við hefðum aldrei fengið þetta verkefni ef þeir hefðu komið til landsins og séð hversu fámenn við vorum,“ segir Baldvin.„Það þarf stundum að setja út kassann til að ná árangri. Þetta verkefni var mikil prófraun fyrir okkur, enda áttum við þarna í samstarfi við sumar af stærstu og virtustu lögmannsstofum heims. Við höfum svo átt í afar góðu samstarfi við þessar stofur síðan.“ Landwell varð BBA Legal árið 2006, þá orðin þriðja stærsta lögmannsstofa landsins og enn sú eina sem sérhæfði sig eingöngu í fyrirtækjalögfræði. Umsvifin jukust í takt við uppganginn í hagkerfinu en þegar fjármálakrísan skall á haustið 2008 var framtíðin tvísýn. „Það voru mörg símtölin þessa mánuðina. Ég bjó úti í London á þeim tíma og var að koma útibúinu okkar þar í gang. Staðan var sú að allir stærstu viðskiptavinir okkar, íslensku bankarnir, voru að verða gjaldþrota. Þegar þeir féllu varð eðlilega mikill órói og manni fannst ekki útilokað að við færum einnig á hliðina,“ segir Baldvin. Raunin var hins vegar önnur því fram undan var endurskipulagning fjármálakerfisins. BBA Legal hefur aldrei haft meira að gera en á árunum eftir fjármálahrunið. Stofan flutti skrifstofu sína í turninn á Höfðatorgi árið 2009 og tryggði sér efstu skrifstofuhæðina með útsjónarsemi. „Við töldum okkur hafa tryggt efstu tvær hæðirnar í turninum en þegar það átti að ganga frá samningunum þá kom í ljós að búið var að semja við FL Group um að taka þrjár efstu hæðirnar. Okkur var boðin 16. hæðin fyrir neðan en við sömdum þannig að ef FL Group gæti af einhverjum ástæðum ekki staðið við samningana sína þá fengjum við efstu hæðina. Síðan fór sem fór fyrir FL Group og við áttum að fá efstu hæðina en þá var ákveðið að ráðstafa henni í lúxusíbúðir. Við fengum næstefstu og höfum verið þar síðan.“Vertíðin endist aldrei BBA Legal vann í mörgum málum tengdum endurskipulagningu fjármálakerfisins, meðal annars fyrir þrotabú Glitnis og kröfuhafa í slitameðferð Landsbankans. Þá rak stofan mál fyrir spænska bankann Aresbank sem átti um 20 milljarða króna í peningamarkaðssjóðum bankanna. Snerist málið um hvort sjóðirnir væri skilgreindir sem innistæður eða ekki og fór fyrir EFTA-dómstólinn. Stærstu verkefnin voru hins vegar þau sem BBA Legal rak fyrir breska ríkið og sextán hollensk sveitarfélög. „Neyðarlögin tryggðu innistæðum í erlendum útibúum íslensku bankanna forgang í slitameðferð gömlu bankanna, þannig að þær væru því sem næst jafnstæðar innstæðum íslensks almennings, sem færðust í nýju bankana. Þessi forgangur innstæðna þýddi að talsvert minna fékkst greitt upp í almennar kröfur. „Þessari löggjöf var mótmælt af hálfu stóru erlendu bankanna sem töldu neyðarlögin vera afturvirka löggjöf sem sett hafi verið á síðustu stundu. Okkar hlutverk var að verja neyðarlögin og tryggja það að þessar 300 þúsund bresku innstæður á Icesave reikningunum sem breska ríkið tók yfir nytu forgangs. Heildarkrafa breska ríkisins var yfir 1.000 milljarðar og ég veit ekki betur en að þetta sé stærsta krafa sem deilt hafi verið um í íslensku dómsmáli. Mál hollensku sveitarfélaganna sem lögðu peninga inn á Icesave var af sama meiði,“ segir Baldvin.Eigendurnir ásamt Elísabetu Ingunni Einarsdóttur, framkvæmdastjóra BBA Legal.Fréttablaðið/Anton brinkBaldvin rifjar upp fund sem boðaður var með forsvarsmönnum hollensku sveitarfélaganna þegar málareksturinn var í undirbúningi. „Við Katrín Helga Hallgrímsdóttir fórum til Hollands til að halda fyrirlestur um hvernig við myndum verja málstað sveitarfélaganna fyrir íslenskum dómstólum. Lögmaður frá Stibbe, hollensku lögmannsstofunni sem vann með okkur í málinu, hafði sagt að þetta yrði líklega erfiðasti fyrirlestur sem við hefðum haldið, enda var málið gríðarlega pólitískt í Hollandi. Við áttum að búa okkur undir margar og erfiðar spurningar. Eftir kynninguna var hins vegar þögn, það kom engin spurning. Ég spurði lögmanninn hvernig stæði á þessu og hann sagði að sveitarstjórnarkosningum væri nýlokið og að búið væri að kjósa út alla þá sem höfðu verið við stjórnvölinn. Þeir sem voru á fundinum vissu sem sagt sáralítið um málið. Ég er ekki viss um að Íslendingar geri sér grein fyrir hversu miklar pólitískar afleiðingar þetta mál hafði í Hollandi.“Endurskipulagning fjármálakerfisins kláraðist að mestu leyti árið 2016. Voru það viðbrigði? „Svona vertíð endist aldrei. Við vissum það og ræddum margoft um að verkefnaflæðið myndi sjatna. Í þó nokkur ár eftir hrunið var stór hluti viðskiptalífsins í gríðarlegri baráttu til þess að koma í veg fyrir að fyrirtæki og einstaklingar færu á hausinn og aðrir voru að verjast kröfum um fangelsisvist. Þetta var alveg ótrúleg barátta sem mér finnst að hafi að mestu leyti lokið á árinu 2016, þótt auðvitað sé baráttan að einhverju leyti enn í gangi. Á árinu 2016 datt botninn svolítið úr, hvað okkar verkefni snerti. Stærstu slagirnir voru að klárast og okkar fólk var alveg búið á því eftir ótrúlega keyrslu. Þetta var í fyrsta sinn í mörg ár þar sem allir gátu tekið gott sumarfrí,“ segir Baldvin.Gríðarlegur áhugi erlendis á innviðum Helstu verkefni BBA Legal snúa að ráðgjöf í tengslum við kaup og sölu á fyrirtækjum, fjármögnun og almennri fyrirtækjaráðgjöf. Spurður hvaða tækifæri hann sjái fram undan nefnir Baldvin inviðaverkefni. „Við sjáum að Ísland er komið aftur á kortið hjá innviðafjárfestum. Margir sem við höfum átt í samskiptum við hafa áhuga á stækkun flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, Borgarlínunni og nýja Laugardalsvellinum svo dæmi séu tekin,“ segir Baldvin. „Áhuginn er gríðarlegur, við fáum fullt af fyrirspurnum erlendis frá vegna innviðaverkefna. Þetta eru innviðafjárfestar, stór verktakafyrirtæki og stórir rekstraraðilar á samgönguvirkjum. Stór alþjóðleg fyrirtæki.“ Baldvin segir að íslensk stjórnvöld, bæði ríkisvaldið og sveitarfélög, þurfi að vera opnari gagnvart einkafjárfestingu í innviðum og aðkoma erlendra fjárfesta geti haft mikinn þjóðfélagslegan ábata í för með sér. „Þetta eru fyrirtæki og fjárfestar sem búa yfir gríðarlegri sérþekkingu á sínu sviði og tengingum úti um allan heim. Þegar kemur að því að reka stór mannvirki eða samgönguvirki þarf þekkingu, fjármagn, alþjóðleg tengsl og tæknilausnir sem við búum ekki endilega yfir á Íslandi. Ef við viljum að vel sé staðið að stórfelldri innviðauppbyggingu þá er mikilvægt að leita þekkingar út fyrir landsteina og fá erlend fyrirtæki til samstarfs við íslenska aðila. Ég held að við séum stundum of viðkvæm fyrir því að erlendir aðilar standi að mikilvægri uppbyggingu hér – við ættum að horfa frekar á að samningagerð og lagaumgjörð utan um slík verkefni sé í lagi,“ segir Baldvin Björn. Hann tekur dæmi um samningana varðandi uppbyggingu á Hörpu en BBA Legal sá um samningagerð í kringum verkefnið. „Harpa var boðin út og einkafjárfestar hugðust eiga og reka Hörpuna með styrkjum frá ríki og borg í 35 ár. Eftir að samningar höfðu verið gerðir, urðu allir hlutaðeigandi gjaldþrota, þar á meðal bankinn sem fjármagnaði bygginguna. Einkaframtak í innviðauppbyggingu hlaut kannski svolítið ótímabæran dauðdaga í kjölfarið finnst mér. Það gleymist algerlega í umræðunni að verkefnið fór á hliðina vegna alþjóðlegrar fjármálakrísu,“ segir Baldvin og nefnir að BBA Legal hafi barist fyrir því að koma vanefndaákvæði inn í samningana sem gerði yfirvöldum kleift að yfirtaka Hörpu á hagstæðu verði. Umrædd ákvæði hafi sparað yfirvöldum verulegar fjárhæðir, sennilega 4-6 milljarða króna. „Það sem skipti mestu máli í þessum efnum, hvort sem um er að ræða erlenda eða innlenda fjárfesta, er að lagaramminn sé góður og að rétt sé búið um hnútana þannig að ríki og sveitarfélög geti gripið til úrræða ef illa fer.“ Löggjöfin hamlar lögmannsstofum Baldvin segir lagaumgjörðina í kringum lögmannsstofur afturhaldssama. Furðulegt sé að enn geti einungis lögmenn átt lögmannsstofur, þegar lögmannsstörf felist að mestu leyti í hefðbundinni ráðgjöf. Þetta sé að breytast víða erlendis. „Mér finnst ekki laust við að hluti stéttarinnar taki sig heldur hátíðlega. Þegar upp er staðið erum við ráðgjafar. Umgjörðin er hins vegar þannig í dag að þú mátt ekki eiga lögmannsstofu á Íslandi nema hafa réttindi til málflutnings og í raun má varla starfa á lögmannsstofu nema vera með lögmannsréttindi. Lögmannafélagið hefur til dæmis að undanförnu gert athugasemdir við að framkvæmdastjórar á lögmannsstofum séu ekki með lögmannsréttindi. Ég hefði haldið að Lögmannafélagið ætti að einbeita sér að mikilvægari hlutum sem eru lögmannastéttinni til hagsbóta. Við erum til dæmis með frábæran framkvæmdastjóra, Elísabetu Einarsdóttur, sem rekur fyrirtækið með miklum myndarbrag. Það er fráleitt að framkvæmdastjórar lögmannsstofa geti ekki átt hlut í þeim nema þeir hafi réttindi til málflutnings.“Hvaða ábata hefði það í för með sér að breyta umgjörðinni og leyfa öðrum en lögmönnum að eiga í lögmannsstofum? „Þetta snýst ekki einungis um ábata, heldur að stéttin átti sig á því að lögmannsstofur eru fyrirtæki og eiga að lúta lögmálum sem slík. Það er svo einnig ljóst að þessi löggjöf hamlar því að lögmannsstofur geti stækkað og boðið ráðgjöf á fleiri sviðum. Í dag eru stóru endurskoðunarfyrirtækin að byggja upp einhverjar af stærstu lögmannsstofum í heimi, í krafti stærðar sinnar á ráðgjafar- og endurskoðunarsviði. Við sjáum einnig uppbyggingu verkfræðistofa hér á landi, sem eru ekki undirorpnar slíkri löggjöf. Það þarf að eiga sér stað framþróun í eignarhaldi á lögmannsstofum svo þær séu samkeppnishæfar. Menn eru svolítið á afturlöppunum hvað þetta varðar hér heima.“
Birtist í Fréttablaðinu Mest lesið Einföld leið til að nýta hugmyndavinnu oftar Atvinnulíf Sektuð fyrir að segjast vera best Neytendur Að kúpla okkur frá vinnu um jólin Atvinnulíf Bölvað basl á Bond Viðskipti erlent Gervigreindin sögð „bjargvættur“ jarðgassiðnaðarins Viðskipti erlent Grýlan sem segir vekjaranum að grjóthalda kjafti Atvinnulíf Innkalla sviðasultu vegna gruns um listeríu Neytendur Kilroy hafi veitt ferðamönnum rangar upplýsingar Neytendur Halda áfram bitcoin-braski þrátt fyrir samkomulag við AGS Viðskipti erlent „Langstærsta“ vikan í sögu Ölgerðarinnar Viðskipti innlent Fleiri fréttir „Langstærsta“ vikan í sögu Ölgerðarinnar Nefna fimm veitingastaði að baki „gervikjarasamningi“ Raforka til gagnavera snarminnkað Þekktir netþrjótar réðust á kerfi Wise Discover hefur flug milli München og Íslands Hærri barnabætur og ný gjöld á nikótínvörur á nýju ári Hluthafarnir samþykkja samruna Marels við JBT Sekta þau sem ekki greiða rétt fargjald um fimmtán þúsund krónur Elma Sif til Stika Solutions Baldvin sagði upp 99 manns sem mættu ekki á morgunfund Standa vörð um bílastæði viðskiptavina Kringlunnar Vonar að allir pakkar berist til þeirra fyrir jól Kortleggja tómar íbúðir í samstarfi við sveitarfélög Jóna Björk tekur við Garðheimum Segja son og tengdadóttur Reynis ekki koma nálægt Mannlífskaupum EastJet flýgur til Basel og Lyon Margrét áfram rektor á Bifröst Ingibjörg Þórdís til Elko Fimm mætt í Kauphöllina RÚV sker sér stærri sneið af auglýsingakökunni Ársverðbólga óbreytt á milli mánaða Tómar íbúðir á landinu nú um 10 þúsund Keppinautar eigi ekki að opna bækur sínar hver gagnvart öðrum Segir kaupverðið á Mannlífi ekki hátt Hætta í stjórn vegna yfirvofandi kaupa á Mannlífi Heimkaup undir hatt Samkaupa Leggja nýjan jarðstreng til Súðavíkur Heimildin að ganga frá kaupum á Mannlífi Lykilstjórnendur fá skell vegna tugmilljóna hagnaðar Segir eðlilegar skýringar á hæsta raforkuverðinu Sjá meira