Íslenski boltinn

KR burstaði Víking Ólafsvík og Afturelding vann Fjölni í markaleik

Anton Ingi Leifsson skrifar
Atli var á skotskónum í kvöld.
Atli var á skotskónum í kvöld. vísir/bára
KR rúllaði yfir Víking Ólafsvík er liðin mættust í A-deild Lengjubikarsins í kvöld en Vesturbæjarliðið skoraði fimm mörk í Egilshöllinni í kvöld.

Pablo Punyed kom KR yfir strax á fjórðu mínútu og tólf mínútum síðar var staðan orðinn 2-0 eftir að danski framherjinn Tobias Thomsen kom boltanum í netið. 2-0 í hálfleik.

Í síðari hálfleik skoruðu KR-ingar þrjú mörk en mörkin gerðu Björgvin Stefánsson, Atli Sigurjónsson og Ægir Jarl Jónasson. Þeir komu allir inn á í hálfleik.

KR er á toppi riðils tvö í A-deild Lengjubikarsins með fullt hús stiga en Víkingur Ólafsvík er með eitt stig eftir fyrstu þrjá leikina í riðlinum.

Í riðli þrjú í A-deildinni vann Afturelding 5-3 sigur á Fjölni. Afturelding komst í 2-0 en Fjölnir jafnaði með tveimur mörkum á skömmum tíma í síðari hálfleik.

Þá setti Aftureldingu í fluggír. Þeir skoruðu þrjú mörk frá 63. mínútu þangað til á 84. mínútu áður en Fjölnismenn klóruðu í bakkann undir lokin. Lokatölur 5-3.

Bæði lið eru með sjö stig eftir fjórar umferðir; tveir sigrar, eitt jafntefli og eitt tap. Þau eru í öðru til þriðja sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×