Innlent

„Fólkið sem skúrar gólfið getur líka dansað á gólfinu og stappað á því“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Elísabet Jökulsdóttir, skáldkona, segir að með því að tala opinskátt um fátækt komist upp um hina raunverulegu glæpamenn í íslensku samfélagi.
Elísabet Jökulsdóttir, skáldkona, segir að með því að tala opinskátt um fátækt komist upp um hina raunverulegu glæpamenn í íslensku samfélagi. Vísir/vilhelm
Skáldkonan Elísabet Jökulsdóttir flutti ávarp á samstöðufundi með hótelþernum á Lækjartorgi í dag þar sem hún sagði að það þætti glæpur að vera fátækur á Íslandi.

Hún hefði upplifað að vera einstæð móðir, í ofbeldissambandi og kljást við áfengisvanda. Það hefði þótt í lagi að tala opinskátt varðandi það en bætti við að það væri eins og tungan frysi föst í munni hennar þegar hún ætlaði sér að tala um fátækt en hún lifði um nokkurt skeið undir fátæktarmörkum.

Elísabet segir að ástæðan fyrir því að það þyki glæpsamlegt að vera fátækur á Íslandi og að ræða það opinskátt sé vegna þess að þá komist upp um „hina raunverulegu glæpamenn“ sem hafi nú í frammi „dapurlegan kór“ og hræðsluáróður um verkfall kvenna í láglaunastétt.

Elísabet segir að hinir ríku hafi ekki einungis eignað sér peninga hinna fátæku og tíma þeirra heldur hafi þeir líka yfirtekið rökin og tekið sér dagskrárvald í samfélaginu.

„ÞAÐ er efnahagsdauðinn sem knýr þetta samfélag áfram,“ segir Elísabet sem bendir á að það sé raunveruleiki að fólk eigi ekki fyrir mat og nauðsynjum. Það hræði hana að landinu sé stjórnað af fólki sem viti ekki af raunveruleika ótal fólks í þeirra eigin landi.

„Það er geðveiki að horfast ekki í augun við raunveruleikann,“ segir Elísabet um stjórnvöld.

„Fólkið sem skúrar gólfið getur líka dansað á gólfinu og stappað á því,“ segir Elísabet sem tók mið af upphafi samstöðufundarins þegar verkafólkið dansaði og fagnaði.  

Elísabet segir að það séu fyrst og fremst börn sem líði fyrir láglaunastefnuna og bendir á með því að vilja draga láglaunastefnuna á langinn kristallist ekkert annað en fyrirlitning á börnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×