Þetta kom fram í máli Sólveigar Önnu í útvarpsþættinum Bítinu á Bylgjunni í morgun. Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri Centerhotels og formaður Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, hefur haldið því fram að á síðustu fimm árum hafi laun Eflingarfólks hækkað um 75 prósent í evrum talið. Þá sé Ísland nú orðinn dýrasti áfangastaður í heimi.
Sólveig Anna gaf afar lítið fyrir þessar fullyrðingar Kristófers.
„Er mjög slæmt að Ísland sé dýrasti áfangastaður í heimi? Og hingað kemur fólk sem hefur sannarlega efni á að koma hérna, fólk sem hefur væntanlega mjög mikið á milli handanna. Staðreyndin er sú að hótelþerna sem vinnur baki brotnu við að þrífa, hún er kannski með 330 til 340 þúsund krónur útborgaðar og inni í þeirri upphæð eru mögulega helgarvaktir,“ sagði Sólveig Anna.
„Ég veit ekki einu sinni hvað er hægt að segja við svona rökum. Ég veit ekki hvað er hægt að segja við menn sem halda því bara statt og stöðugt fram að í samfélagi, þar sem húsaleiga étur upp miklu, miklu meira en helming af ráðstöfunartekjum lágtekjuhópanna, að það sé ekki hægt að breyta neinu.“
Innt eftir því hvort Efling hygðist bakka eitthvað með kröfur sínar í viðræðum við Samtök atvinnulífsins sagði Sólveig Anna ekki tímabært að segja neitt til um það.
„Við erum náttúrulega akkúrat núna í þessum aðgerðum, viðræðum hefur verið slitið. En auðvitað kemur að því að við semjum, auðvitað kemur að því að við komum aftur að samningaborðinu. Við bara sjáum hvað gerist þegar sú stund rennur upp.“
Biðst ekki afsökunar á að hafa fagnað verkfallinu
Verkfall hótelþerna í Eflingu hefst klukkan tíu í dag og mun standa til miðnættis. Það varð ekki endanlega ljóst fyrr en dómur Félagsdóms um lögmæti verkfallsboðunarinnar lá fyrir eftir hádegi í gær. Sólveig Anna hefur sagst hlakka mikið til verkfallsins, og verið gagnrýnd fyrir þá afstöðu sína í kjölfarið. Hún svaraði fyrir sig í gær en kom einnig inn á málið í morgun.„Þegar ég lét þessi orð falla var ég engu að síður jafnframt að endurspegla þau viðbrögð og þau orð sem þær konur, sem ég hef hitt og talað við, hafa sannarlega látið falla og þær tilfinningar sem þær hafa með mjög skýrum hætti látið í ljós,“ sagði Sólveig Anna.
„Ég veit það ekki, það er kannski ekki í boði fyrir láglaunakonur á Íslandi að gleðjast yfir því að fá loksins tækifæri á að sýna fram á grundvallarmikilvægi sitt. En þá er það bara enn ein sönnunin á því hvað við erum á ömurlega erfiðum og sorglegum stað.“
Viðtalið við Sólveigu Önnu má hlusta á í heild í spilaranum hér að neðan.