Skoðun

Sull

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Ég var átján ára þegar bjór­múrinn féll á Íslandi 1. mars 1989 og þótt ég hafi ekki verið í blakkáti man ég ekki hvar ég var þegar 4,5% frelsisbylgjan skall á landinu.

Þessi stórkostlegu tímamót komu mér bara ekki rassgat við vegna þess að ég var ekki byrjaður að drekka þannig að ég veit þó fyrir víst að ég var ekki í taumlausri gleði með einn ískaldan á frelsis­kantinum. Ég byrjaði ekki að drekka fyrr en tveimur árum síðar þegar kærastan mín blandaði mér í glas í fyrsta sinn. Romm í kók. Hún skildi síðan við mig fjórtán árum síðar vegna þess að ég var alkóhólisti.

Henni að þakka samt að ég stökk yfir bjórinn beint í rommið en eftir að ég byrjaði að misnota áfengi furða ég mig enn frekar á bjórdýrkuninni. Þessi ömurlegasta útgáfa af etanóli er varla ölkum bjóðandi.

Bjórinn er hallærislegur og kjánalegur, enda þjóðardrykkur fótboltabullna, plebba og snobbara sem upphefja alkóhólisma sinn með endalausu IPA-hjali um að sullið þeirra sé eins og bern­aise-sósa gerð frá grunni á meðan Gullið er eins og pakkasósa frá Knorr. Og?

Áfengi er hugbreytandi efni þannig að tilgangurinn með neyslu þess er augljós og þá er nú skömminni skárra að gera það hratt og örugglega með alvöru áfengi frekar en að dunda sér við það og verða latur, þreyttur og feitur í leiðinni.

Frelsi er samt alltaf gott og ekki verra að geta fagnað þrjátíu ára bjórfrelsi á föstudegi. Ekki að þetta hafi markað lausn úr einhverri ægilegri ánauð þar sem hér var og er allt fljótandi í landa, Smirnoff, Bacardi og íslensku brennivíni.

Ég skála bara með ykkur í romm&kók á meðan þið lepjið sullið enda er frjáls Kúba miklu skemmtilegri en frjálst Ísland sem er jú, latt, feitt og leiðinlegt.




Skoðun

Sjá meira


×