Innlent

Tilkynnir ummæli um hryðjuverkaárásina í Christchurch til lögreglu

Birgir Olgeirsson skrifar
Sema Erla Serdar, akvítvisti.
Sema Erla Serdar, akvítvisti. FBL/Eyþór
Aktívistinn Sema Erla Serdar hefur tilkynnt ummæli til lögreglu sem voru rituð í athugasemdakerfi undir frétt Vísis af hryðjuverkaárásinni á tvær moskur í borginni Christchurch í Nýja-Sjálandi í nótt. Að minnsta kosti 49 biðu bana í þessari árás og hátt í fimmtíu særðir. Sema segir ummælin vera hatursfull ásamt því að hvetja til og ýta undir ofbeldi í garð minnihlutahóps í íslensku samfélagi.

Ákveðið var að loka athugasemdakerfi við fréttir sem Vísir hefur flutt af hryðjuverkaárásinni vegna hatursummæla. Sema segir í samtali við Vísi að hún hafi tekið skjáskot af ummælum tveggja manna þar sem árásinni er hrósað og talað um að sjálfsvörn væri að ræða.

Sema telur að ummælin geti varðað við brot á grein 233a í almennum hegningarlögum þar sem segir að sá skuli sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum sem opinberlega hæðist að, rógber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með ummælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóðernis, litarháttar, kynþáttar, trúarbragða, kynhneigðar eða kynvitundar, eða breiðir slíkt út.

Hún segist búast við því að vera kölluð til skýrslutöku hjá lögreglu og geti þá lagt fram kæru vegna ummælanna.

Sjá einnig: Dómsmálaráðherra segir frumvarp ekki auka rými fyrir hatursorðræðu

Hefur Sema áður kært ummæli en í fyrra dæmdi Héraðsdómur Suðurlands karlmann til greiðslu 100 þúsund krónu sektar fyrir hatursummæli sem beindust gegn Semu Erlu í athugasemdakerfi við frétt DV.is árið 2016. Þar sagðist maðurinn vonast til að Sema Erla farist í næstu hryðjuverkaárás.

Þá voru tveir dæmdir til greiðslu 100 þúsund króna sektar í ríkissjóð vegna ummæla sem þeir létu falla um samkynhneigð í athugasemdakerfum við frétt Vísis annars vegar og frétt DV hins vegar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×