Gjaldþrot Aurláka ehf., félags í fullri eigu fjárfestisins Karls Wernerssonar, nam alls rúmlega 1,8 milljörðum króna. Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta í upphafi síðasta árs eftir að því var gert að greiða þrotabúi Milestone tæpan milljarð króna vegna sölu á Lyf og heilsu.
Lyfjaverslunin var seld úr Milestone í mars árið 2008 og varð síðarnefnda félagið gjaldþrota ári síðar. Þrotabú Milestone hélt því fram að ekki hafi fengist fullnægjandi greiðsla fyrir Lyf og heilsu úr fyrirtækinu og stefndi því Aurláka ehf. og krafðist 970 milljóna króna.
Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á kröfuna í apríl 2015 en þá þótti ljóst að Aurláki gat ekki staðið undir skuldagreiðslunni, færi svo að niðurstaðan yrði staðfest í Hæstarétti - sem varð raunin og Aurláki því tekinn til gjaldþrotaskipta.
Fram kemur í Lögbirtingablaðinu í dag að skiptum í búið hafi lokið á mánudag með því að 346.478.020 krónur fengust greiddar upp í lýstar kröfur. Heimturnar voru því rúmlega 19 prósent og heildarupphæð gjaldþrotsins næstum tvöfalt hærra en fyrrnefnd greiðsla til Milestone.
Karl Wernersson fékk þriggja og hálfs árs fangelsisdóm í Hæstarétti í apríl 2016 fyrir umboðssvik og bókhaldsbrot. Degi eftir dóminn var félaginu Toska ehf. afsalað til Jóns Hilmars Karlsonar, sonar sakfellda, en Toska er eigandi Lyf og heilsu í gegnum félögin Faxa ehf. og Faxar ehf.