Björk segir að keppnin muni fara fram í ár enda sé hún ekki háð því að WOW sé með starfsemi. Það sé WOW Sport sem hafi staðið fyrir keppninni frá árinu 2012 og sé um sjálfseignarstofnun að ræða. Fyrirhugað er að Cyclothonið fari fram dagana 25. til 29. júní í sumar.
„Keppnin verður haldin. Við munum standa vörð um þennan frábæra viðburð og höldum ótrauð áfram,“ segir Björk.
Fleiri styrktaraðilar
WOW air hefur verið helsti styrktaraðili keppninnar frá upphafi og er því líklegt að nafn keppninnar komi til með að breytast. Björk segir að fleiri styrktaraðilar komi nú þegar að keppninni.Magnús Ragnarsson, annar upphafsmanna WOW Cyclothon, segir að viðræður um nýjan aðalstyrktaraðila standi nú yfir og að vonir standi til að sá verði kynntur á svokölluðum Ofurhjóladegi sem fram fer í Kringlunni á sunnudaginn næsta.

Björk segir að margir hafi spurt um framtíð keppninnar í morgun eftir að tíðindin af gjaldþroti WOW air bárust. „Eðlilega eru margir að velta þessu fyrir sér,“ segir Björk.
Svipuð skráning og síðustu ár
Björk segir að skráningin í keppnina í ár hafi verið svipuð á þessum tíma og á síðustu árum. „Það er yfirleitt þannig að útlendingarnir skrá sig snemma og Íslendingar seint.“Á heimasíðu WOW Cyclothon segir að keppnin sé hugarfóstur þeirra Skúla Mogensen og Magnúsar Ragnarsonar og hafi hugmyndin kviknað í spjalli þeirra árið 2011.