Enski boltinn

Fyrirliða enska fótboltalandsliðsins dreymir um að spila í NFL-deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane með Gullskóinn sem hann fékk fyrir að vera markakóngur HM í Rússlandi 2018.
Harry Kane með Gullskóinn sem hann fékk fyrir að vera markakóngur HM í Rússlandi 2018. Vísir/Getty
Harry Kane hefur náð hæstum hæðum í sinni íþrótt en hann dreymir samt um að spila á hæsta stigi í annarri íþrótt.

Harry Kane er fyrirliði enska landsliðsins, margfaldur markakóngur í ensku úrvalsdeildinni og markakóngur síðasta heimsmeistaramóts í Rússlandi sumarið 2018.

Harry Kane hefur hins vegar aldrei farið í felur með áhuga sinn á bandarísku NFL-deildinni en hann er mikill stuðningsmaður nýkrýndra NFL-meistara í New England Patriots.

Kane var meira að segja meðal áhorfenda á Super Bowl leiknum í Atlanta í byrjun febrúar þegar Patriots liðið vann sinn sjötta meistaratitil.





„Ég þrái það að spila í NFL-deildinni. Það er eitthvað sem ég mun örugglega reyna að ná að gera eftir tíu til tólf ár,“ sagði hinn 25 ára gamli Harry Kane í viðtali við ESPN.

Kane myndi þá væntanlega taka að sér stöðu sparkara í NFL-liði en hann er heimsþekktur fyrir frábærar spyrnur sínar í fótboltanum.

„Ef þú spilar í ensku úrvalsdeildinni, á heimsmeistaramótinu í fótbolta og svo í NFL, værir þú þá orðinn merkasti íþróttamaður allra tíma?,“ spyr Kane.

„Þetta kemur inn á það að ég reyni að vera bestur í öllu sem ég geri. Meira að segja ef ég hleð niður leik í símann, þá spyr ég mig hvort ég geti orðið sá besti í heimi í honum,“ sagði Kane í viðtalinu.





Harry Kane hitti Tom Brady í Atlanta en Brady hefur verið leikstjórnandinn og aðalmaðurinn í öllum sex titlum New England Patriots liðsins.

„Við eigum það sameiginlegt að fólk var að efast um okkur þegar við vorum yngri enda hvorugur meðal besti íþróttamannanna þegar við vorum krakkar,“ sagði Kane.

„Hann sýndi mér líka að allt er mögulegt. Ef þú trúir á sjálfan þig og hefur líka drifkraftinn og hungrið þá getur þú náð þessu,“ sagði Kane.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×