Fótbolti

Lifði af Chapecoense flugslysið en lést eftir fótboltaleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rafael Henzel er hér lengst til hægri með leikmönnunum þremur sem lifðu slysið af en þeir eru Alan Ruschel, Neto og Jackson Follmann.
Rafael Henzel er hér lengst til hægri með leikmönnunum þremur sem lifðu slysið af en þeir eru Alan Ruschel, Neto og Jackson Follmann. Getty/Jayson Braga
Einn af þeim sex sem lifði af Chapecoense flugslysið árið 2016 lést í gær eftir að hafa fengið hjartaáfall.

Rafael Henzel var 45 ára brasilískur fjölmiðlamaður sem var að spila fótbolta með vinum sínum þegar hann féll skyndilega í jörðina. Henzel var fluttur á sjúkrahús en lést skömmu síðar.

Aðeins þrír leikmenn Chapecoense komust af í flugslysinu en liðið var á leiðinni í úrslitaleik í Copa Sudamericana sem var spilaður í Kólumbíu. 77 farþegar voru í vélinni þar af 19 leikmenn Chapecoense.





Chapecoense minnist Rafael Henzel sem „táknmyndar endurbyggingar félagsins“ eftir þetta mikla áfall að missa út allt aðalliðið sitt. Þeir þrír sem eftir stóðu voru það slasaðir að þeir voru ekkert að fara að spila alvöru fótbolta á næstunni.

Rafael Henzel var mjög virtur fjölmiðlamaður en hann fór aftur í sitt gamla starf sem útvarpsmaður þegar hann var búinn að ná sér eftir flugslysið sem varð 28. nóvember 2016.

„Allan sinn frábæra feril sagði Rafael söguna af Chapecoense,“ sagði í minningarfrétt á heimasíðu félagsins og þar er tekið fram að félagið muni aldrei gleyma hvað Rafael Henzel gerði fyrir það.





Henzel braut sjö rifbein í slysinu en slapp annars ótrúlega vel. Hann gaf út bók þar sem hann sagði frá upplifun sinni af flugslysinu. Hinir fimm sem lifðu af voru leikmennirnir Alan Ruschel, Helio Zemper Neto og Jakson Follmann og flugþjónarnir Ximena Suarez og Erwin Tumiri.

Henzel átti að lýsa næsta leik Chapecoense sem var á móti Criciúma í Copa do Brasil en Chapecoense biðlaði til brasilíska sambandsins að leiknum yrði frestað vegna fráfalls Rafael Henzel.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×