Innlent

Fram­kvæmda­stjóri SA vonast eftir löngum fundi hjá sátta­semjara

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Halldór Benjamín Þorbergsson er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Halldór Benjamín Þorbergsson er framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. vísir/vilhelm
Fundur í kjaradeilu sex verkalýðsfélaga, þar á meðal Eflingar og VR, og Samtaka atvinnulífsins hófst núna klukkan 14 í húsakynnum ríkissáttasemjara.

Samkvæmt vef sáttasemjara er áætlað að fundurinn standi til klukkan 15:30 en Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, sagði í samtali við fréttastofu áður en fundur hófst að hann vonaðist eftir löngum fundi.

Að öllu óbreyttu hefjast tveggja sólarhringa löng verkföll um 2000 félagsmanna í Eflingu og VR á miðnætti. Verkföllin ná til starfsmanna rútufyrirtækja og hótela á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni og standa fram að miðnætti á föstudag.

SA báðu félögin um það á sáttafundi í gær að fresta verkföllunum en formenn VR og Eflingar urðu ekki við því.

Ólíklegt er talið að verkföllunum verði frestað og undirbúa rútufyrirtæki og hótel sig nú undir verkfallið sem búast má við að hafi víðtækari áhrif á starfsemi fyrirtækjanna en sólarhringsverkfallið síðastliðinn föstudag þar sem það stendur lengur.


Tengdar fréttir

Verkföll hefjast að óbreyttu á miðnætti

Tveggja sólarhringa verkföll rútubílstjóra og hótelstarfsmanna sem eru félagsmenn í Eflingu og VR hefjast að óbreyttu á miðnætti í kvöld og standa til miðnættis á föstudag.

Finnst Efling ganga æði langt með tilmælum til ferðamanna

Þóri Garðarssyni, stjórnarformanni hjá Gray Line Iceland, finnst Efling stéttarfélag ganga æði langt með einblöðungum sem hefur verið dreift í höfuðborginni þar sem þeim tilmælum er beint til ferðamanna að velja aðra samgöngumáta en hópferðabíla vegna verkfallsins sem er á fimmtudag og föstudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×