Innlent

Verkföll hefjast að óbreyttu á miðnætti

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá verkfallsaðgerðum á föstudag.
Frá verkfallsaðgerðum á föstudag. vísir/vilhelm
Tveggja sólarhringa verkföll starfsmanna rútufyrirtækja og hótelstarfsmanna sem eru félagsmenn í Eflingu og VR hefjast að óbreyttu á miðnætti í kvöld og standa til miðnættis á föstudag.

Aðgerðirnar nú eru umfangsmeiri en verkföllin síðastliðinn föstudag að því leytinu til að verkföllin standa í tvo sólarhringa en ekki einn. Því er viðbúið að þau muni hafa töluvert meiri áhrif á starfsemi hótela og rútufyrirtækja en fyrri verkfallsaðgerðir.

Samtök atvinnulífsins biðluðu til verkalýðsforingja í gær um að fresta verkföllum í ljósi viðkvæmrar stöðu í efnahagslífsins, ekki hvað síst vegna óvissunnar um stöðu WOW air sem og ferðaþjónustunnar í heild sinni. Formenn Eflingar og VR urðu ekki við þeirri beiðni.

Sáttafundi í kjaradeilu sex verkalýðsfélaga, þar á meðal Eflingar og VR, við SA var frestað í gær eftir tæpa klukkustund vegna WOW air.

Fundi á mánudag var einnig frestað af sömu ástæðu en búið er að boða til nýs fundar klukkan 14 í dag og á hann að standa til klukkan 15:30 samkvæmt dagskrá á vef ríkissáttasemjara.


Tengdar fréttir

Fundi aftur frestað vegna WOW air

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir í samtali við fréttastofu að fundinum hafi verið frestað að beiðni SA vegna stöðunnar hjá WOW air.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×