Viðskipti innlent

Bætti við sig fyrir 1,7 milljarða króna í Marel

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Hlutabréf í Marel hafa hækkað um 46 prósent frá áramótum.
Hlutabréf í Marel hafa hækkað um 46 prósent frá áramótum. Fréttablaðið/EPA
Bandaríski fjárfestingarsjóðurinn Smallcap World Fund, sem er í stýringu American Funds, bætti við tæplega hálfs prósents eignarhlut, jafnvirði um 1.700 milljóna króna miðað við núverandi gengi bréfa, í síðustu viku og fer núna með um 3,3 prósenta hlut í félaginu. Frá áramótum hefur sjóðurinn, sem er sjöundi stærsti hluthafi fyrirtækisins, tvöfaldað eignarhlut sinn í Marel.

Gildi lífeyrissjóður hélt áfram að minnka við eignarhlut sinn í Marel og seldi um 0,25 prósenta hlut í síðustu viku, sem er metinn á ríflega 900 milljónir króna, og fer nú með 5,9 prósenta hlut í félaginu.

Auk Smallcap World Fund hefur evrópski vogunarsjóðurinn Teleios Capital bætt verulega við sig í Marel frá því í janúar og fer nú með 2,45 prósenta hlut í félaginu að virði liðlega níu milljarða króna.

Hlutabréfaverð í Marel hefur hækkað um meira en 46 prósent frá áramótum. Félagið er langsamlega verðmætasta fyrirtækið í Kauphöllinni með markaðsvirði upp á 357 milljarða króna. Gengi hlutabréfa Marels standa í 541 krónu á hlut og hefur aldrei verið hærra.




Tengdar fréttir

Erlendir sjóðir bæta við sig í Marel fyrir meira en þrjá milljarða

Fjárfestingasjóður í stýringu evrópska vogunarsjóðsins Teleios Capital, sem kom fyrst inn í hluthafahóp Marels í janúar, hefur bætt við sig rúmlega 3,4 milljónum hluta, jafnvirði um 1.650 milljóna króna miðað við núverandi hlutabréfaverð, það sem af er marsmánuði og fer núna með 2,45 prósenta eignarhlut.

Kominn með um sex milljarða hlut í Marel 

Fjárfestingasjóður í stýringu evrópska vogunarsjóðsins Teleios Capital heldur áfram að bæta verulega við sig í Marel en í síðustu viku keypti sjóðurinn tæplega fimm milljónir hluta, að virði um 2.300 milljónir króna, í félaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×