Erlent

Kraft biðst afsökunar eftir ákæru vegna vændiskaupa

Samúel Karl Ólason skrifar
Robert Kraft, eigandi New England Patriots.
Robert Kraft, eigandi New England Patriots. AP/Charlie Neibergall
Robert Kraft, eigandi New England Patriots, hefur beðist afsökunar eftir að hann var kærður fyrir meint vændiskaup á nuddstofu í Flórída. Í fyrstu yfirlýsingu sinni eftir að hann var kærður segist hann vita að hann hafi sært fjölskyldumeðlimi sína, vini, samstarfsmenn, aðdáendur Patriots og aðra og hann hafi valdið þeim vonbrigðum.

Kraft, sem er 77 ára gamall, sagðist bera gífurlega virðingu fyrir konum og að siðferði hans hafi mótast af eiginkonu hans sem lést árið 2011.

„Allt mitt líf hef ég reynt að breyta rétta. Það síðasta sem ég vildi gert hafa er að vanvirða aðra mannveru,“ hefur AP fréttaveitan eftir Kraft. Þá sagðist hann vonast til þess að vinna sér inn traust og virðingu á nýjan leik.



Kraft var ákærður í síðasta mánuði fyrir að hafa keypt vændi tvisvar sinnum. Hann neitar sök. Hann og aðrir sakborningar (um300) í umfangsmiklu vændismáli lögreglunnar í Flórída, berjast nú gegn því að myndbönd, sem lögreglan segir að sýni sakborninga stunda kynlíf með vændiskonum og mögulegum fórnarlömbum mansals, verði gerð opinber.

Nokkrir fjölmiðlar í Bandaríkjunum hafa tekið höndum saman til að reyna að koma höndum yfir sönnunargögn í málinu. Dómsskjöl segja lögregluþjóna hafa tekið vændiskaup Kraft upp á falda myndavél þann 19. janúar og þann 20. janúar.

Saksóknarar hafa boðist til þess að fella ákærurnar niður ef mennirnir samþykkja að sitja námskeið um hættur vændis og mansals, sinna samfélagsþjónustu og greiða sekt. Samkomulagið fæli einnig í sér viðurkenningu á sekt þeirra. Þar að auki þyrftu þeir að mæta fyrir dómara og gangast próf vegna kynsjúkdóma.

Lögreglan hefur lokað tíu nuddstofum í Palm Beach og Orlando. AP segir margar af konunum sem þar unnu vera frá Kína og þær hafi verið þvingaðar til að búa á nuddstofunum og þær hafi ekki fengið að fara út án þess að vera fylgt eftir.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×