Innlent

Engin gósentíð í nótt hjá leigubílstjórum

Jakob Bjarnar skrifar
Einar Árnason segir að það hafi ekki verið nein uppgrip í nótt, eins og margir ætluðu að yrðu.
Einar Árnason segir að það hafi ekki verið nein uppgrip í nótt, eins og margir ætluðu að yrðu.
Einar Árnason formaður bílstjórafélagsins Fylkis í Keflavík segir rútur Kynnisferða hafa farið um eins og venjulega þó nú sé yfirstandandi verkfall.

„Þetta var engin gósentíð fyrir leigubílstjóra þrátt fyrir þetta verkfall. Reyndar er engin gósentíð fyrir leigubílstjóra almennt,“ segir Einar. Hann segir að fleiri leigubíla hafi verið mættir á vettvang í nótt en venjulega, við Leifsstöð, til að mæta ætlaðri aukningu ferða vegna verkfalls rútubílsstjóra sem hófst í nótt. En, það hafi þá bara þýtt að fleiri voru um hituna. En, þeir voru að mæta eftirspurn sem engin var því ekki var um fleiri túra að ræða en alla jafna.

Vísir ræddi í gær við Guðmund Börk Thorarensen, framkvæmdastjóra BSR-leigubíla, og hann taldi þá vandséð að leigubílstjórar gætu annað eftirspurn þegar rútubílstjórar leggðu niður störf. En, ekki fór það nú svo.

Kynnisferðir fara um eins og ekkert sé verkfallið

„Eina sem við urðum varir við að það eru fleiri en venjulega sem hanga hér við flugsstöðina. Hefur ekkert aukist vinnan. Enda keyra Kynnisferðir hér fram og til baka. Ég held ég hafi talið átta rútur í morgun þegar mest var,“ segir Einar. Þetta hafi því gengið sinn vanagang hjá leigubílstjórum.

Leigubílar við Leifsstöð í nótt. Ekkert að gera. Leigubílstjórar gripu í tómt.visir/Jói K
„Kynnisferðir eru ekkert að rifa seglin, alla veganna virðast þessi verkföll ekki hafa mikil áhrif á ferðirnar hjá okkur leigubílsstjórum. Ekkert aukist vegna þessara verkfalla. Hérna suðurfrá í nótt þá jókst bara fjöldi bíla í umferð og það var því meiri bið. Þetta eru ekki uppgrip fyrir menn eins og margir halda.“

Rólegt í nótt hjá leigubílstjórum

Einar segist hafa spurt félaga sína í leigubílstjórastétt hvernig þetta hafi verið í Reykjavík og samkvæmt því var fullt af lausum bílum alls staðar.

„Þó margir haldi eitthvað annað þá er oftast nóg af leigubílum og oft of mikil. Þetta verkfall hefur ekki haft þau áhrif að það hafi verið meira að gera.“

Vísir hefur rætt við fleiri leigubílsstjóra í morgun sem hafa sömu sögu að segja. Einn þeirra benti á að það gæti orðið athyglisvert að sjá hvernig ástandið verður um klukkan 15 í dag þegar síðdegisflugið er.

Leifsstöð nú áðan, með augum Einars. Ekki mikið að gerast í fólksflutningum.einar árnason

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×