Guðmundur segir í samtali við fréttastofu að aðgerðir hafi gengið vel í dag. Verkfallsverðir hafi byrjað morguninn hjá bílstjórum Kynnisferða við umferðarmiðstöðina.
„Hér eiga sér stað verkfallsbrot. Hér eru menn í vinnu og við höfum verið að ræða við þá og þeir neita að gefa upp, bæði nöfn og þau félög sem þeir eru í, það er að segja þeir eru ekki Eflingarmenn. Allavega vilja þeir ekki gefa það upp. Og það eru brot á okkar samningum að þeir sem eru að keyra hér eru að keyra undir kjarasamningi Eflingar,“ segir Guðmundur.
Aðspurður segir hann þó verkfallsverði ekki ætla að stöðva akstur bílanna en gripið verður til annars konar aðgerða.
„Við hins vegar tökum myndir af bílunum og skráum tímasetningu. Síðan verður þetta sent inn til Eflingar og síðan verður það sent áfram í kæruferli því hér er um augljóst verkfallsbrot að ræða.“
Í spilaranum að ofan má sjá viðtal við Guðmund sem Jóhann K. Jóhannsson fréttamaður tók við BSÍ í morgun. Í spilaranum að neðan má sjá orðaskipti verkfallsvarða og bílstjóra Kynnisferða.