Erlent

Ardern sýni hugrekki með byssubanni

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands. Nordicphotos/AFP
Ríkisstjórn Jacindu Ardern á Nýja-Sjálandi tilkynnti í gær um bann við hálfsjálfvirkum, „hernaðarlegum“ skotvopnum og stórum skothylkjum. Þetta er gert í kjölfar hryðjuverkaárásar á tvær moskur í borginni Christchurch þar sem fimmtíu voru myrt.

„Hvert einasta hálfsjálfvirka vopn sem var notað í hryðjuverkaárás föstudagsins verður bannað,“ sagði Ardern en bann við sölu tók samstundis gildi þótt það eigi eftir að koma málinu í gegnum þingið. Þetta sagði Ardern gert til að koma í veg fyrir að fólk myndi birgja sig upp af vopnum og skothylkjum áður en frumvarpið yrði að lögum.

Bannið nær ekki til smærri riffla og hálfsjálfvirkra skotvopna sem bændur og veiðimenn nota einna helst. Afar líklegt þykir að frumvarpið verði samþykkt á þingi. Flokkur Ardern er í meirihluta og ekkert ákvæði er í nýsjálensku stjórnarskránni um rétt til vopnaburðar, ólíkt því sem er í Bandaríkjunum þar sem tilraunir til hertrar skotvopnalöggjafar hafa iðulega mistekist í kjölfar skotárása.

Ardern sagði að fólk gæti afhent yfirvöldum þær byssur sem verða ólöglegar og fengið greiðslu í staðinn. Þá sagði hún bæði her og lögreglu verða undanskilin lögunum.

„Ardern sýnir mikið hugrekki. Þetta er einungis hægt að gera í ríkjum þar sem borgarar hafa ekki sjálfgefinn rétt til vopnaburðar. Vopn eru forréttindi. Ef við hefðum lagalegan rétt eins og í Bandaríkjunum væri þetta mun erfiðara,“ hafði AP eftir Andrew Gillespie, prófessor í alþjóðalögfræði við Waikato-háskóla.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×