Innlent

Samningafundi slitið og verkfall hefst á morgun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá fundi félaganna hjá ríkissáttasemjara fyrr í mánuðinum.
Frá fundi félaganna hjá ríkissáttasemjara fyrr í mánuðinum. Vísir/vilhelm
Samningafundi verkalýðsfélaganna Eflingar, VR, VLFA, VLFG, Framsýnar og LÍV við Samtök atvinnulífsins lauk nú á ellefta tímanum í húsakynnum ríkissáttasemjara. Annar fundur hefur verið boðaður klukkan hálf 10 í fyrramálið. Þá munu verkföll Eflingar hefjast á morgun, samkvæmt upplýsingum frá formanni félagsins.

Fundur deiluaðila hófst klukkan tíu í morgun og stóð því yfir í rúmar tólf klukkustundir. Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar vildi ekki tjá sig um efni fundarins eða gang viðræðna í samtali við Vísi nú skömmu fyrir klukkan 23.

„Við mætum bara á morgun og höldum áfram,“ segir Sólveig, innt eftir því hvort hún sé bjartsýn fyrir fund morgundagsins. Aðrir formenn verkalýðsfélaganna hafa ýmist ekki viljað tjá sig um viðræðurnar í kvöld eða ekki svarað símtölum fréttastofu.

Þá staðfestir Sólveig að verkföll bílstjóra Almenningsvagna Kynnisferða, sem eru félagsmenn í Eflingu og aka ákveðnum leiðum Strætó, hefjist í fyrramálið klukkan 7. Gert er ráð fyrir að það standi yfir út apríl, á hverjum degi frá 7-9 á morgnana og 16 til 18 síðdegis en um er að ræða tíu leiðir Strætó. Hér má nálgast upplýsingar um þær leiðir sem verkfallið mun hafa áhrif á.

Þá hefjast verkföll hótelstarfsmanna og rútufyrirtækja á miðvikudag og standa yfir í þrjá sólarhringa, að öllu óbreyttu.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Samningsaðilar ræða launaliðinn mjög stíft

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segir að steytt hafi á umræðunni um launaliðinn í kjaraviðræðum sex stéttarfélaga við Samtök atvinnulífsins en deiluaðilar hafa fundað stíft í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×