Lífið

Auðvitað er lærdómur að takast á við áfall

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Þórunn er stolt af öllum börnunum sínum og finnst auðvitað að hún eigi alveg einstakt barnabarn. Bara verst að það á heima dálítið langt í burtu.
Þórunn er stolt af öllum börnunum sínum og finnst auðvitað að hún eigi alveg einstakt barnabarn. Bara verst að það á heima dálítið langt í burtu. Fréttablaðið/Stefán
Þórunn Egilsdóttir alþingsmaður er í veikindafríi en er að horfa á beina útsendingu úr þinghúsinu þegar við Stefán ljósmyndari heimsækjum hana. Skáhallt móti sjónvarpinu er hennar hægindastóll. „Þessi er kallaður móðurstöðin,“ segir hún og hlær. Getur hún kannski sent þingliðinu tóninn þaðan ef henni þykir við þurfa? „Já, ég get það gegnum samfélagsmiðla en ég stilli mig. Er meira í að reyna að vera hvetjandi. Það er betra. Ég gaf einkunnir um daginn!“

Hún kveðst eiga marga vini á þinginu. „Það er öndvegisfólk í öllum flokkum en auðvitað tengir maður misvel við fólk. Það er margt áhugavert sem maður fær að sjá og kynnast í þingmannsstarfinu sem maður kæmist ekki í öðru vísi,“ segir hún og kveðst þakklát fyrir að fá umboð til að sinna þessu starfi, enda hafi hún lagt sig fram um að gera það eins vel og hún geti.

Kallar æxlið boðflennu

Sjónvarpið er af stærri gerðinni. „Ég splæsti í þetta tæki þegar ég greindist með krabbameinið, svo ég gæti fylgst sem best með,“ segir hún og er í framhaldinu beðin að lýsa því sem hún hefur verið að ganga í gegnum.

„Ég fór í myndatöku 5. febrúar, þá var ég búin að finna eitthvað í brjóstinu. Svo var ég boðuð í sýnatöku um miðjan febrúar og fékk fyrsta lyfjaskammtinn 14. mars. Þetta hefur gengið hratt fyrir sig, enda meinið komið á þriðja stig, var hraðvaxandi og þríneikvætt, þannig að það svarar engri hormónameðferð. Þetta er ein tegund af krabbameini og þá virkar bara ein tegund af lyfjum. Ég er búin að fá svokallaðan lyfjabrunn í bringuna og fæ lyfin í hann. Þau eru svo svakalegt eitur að ef þau fara á húð eða eitthvað út fyrir þá éta þau upp vefi.“

Hún kveðst fá lyfjagjöf á þriggja vikna fresti, gegnum brunninn, og vera búin með eina af sex. „Svo fer ég líklega í skurðaðgerð, þá verður ákveðið hvert framhaldið verður, hvort ég fer í geisla eða hvað. Þetta er heljarinnar pakki. Ég kalla æxlið boðflennu og það er búið að setja merki inn í það, þá sést hvar það er, ef það minnkar og jafnvel hverfur, eins og gerist stundum í svona meðferðum. Það verður bara að koma í ljós. Ég er bjartsýn, ætla bara að leyfa mér það. Hugurinn skiptir svo miklu í lífinu, sama í hverju við erum. Ég hef tamið mér jákvæðni, meðal annars í þinginu. Það er miklu skemmtilegra en að vera neikvæður, ekki spurning.“

En það er meira en að segja það að fá svona greiningu. Spurð hvernig henni hafi orðið við svarar Þórunn: „Ég vissi þetta innra með mér – en get ekki útskýrt hvernig. Fór í skíðafrí með foreldrum mínum og góðum vinum í janúar, þá var ég búin að finna þetta í brjóstinu og átti tímann pantaðan. Einhvern veginn leið mér þannig að ég átti von á þessari niðurstöðu. Eftir á átta ég mig á því að ég var búin að vera orkulítil um tíma, hélt bara að ég væri búin að vinna of mikið og orðin langþreytt. En þetta var meira.“

Um leið og Þórunn rennir kaffi í bollana segir hún: „Ég ætla mér í gegnum þetta og geri það á minn hátt. Það er enginn sem segir að það sé rétta aðferðin. Við erum öll ólík og eigum að vera það. Ég er alls enginn sérfræðingur í þessu efni en ég vanda mig í að hlusta á fólk sem veit meira, bæði fagfólk sem hefur djúpri og mikilli þekkingu að miðla og fólk sem er eða var í sömu stöðu og hefur reynslu.“

Hún kveðst hafa sett sér að fara í göngutúr á hverjum degi og það hafi tekist, meira að segja dagana sem hún var sem slöppust. „Þá staulaðist ég Hvassaleitishringinn. Foreldrar mínir fóru með mér. Góðir vinir hafa líka mætt til að fara með mér í gönguferðir. Það er ómetanlegt. Það er svo hressandi að fara út og eiga gott samtal á göngu.“

Þórunn ber lof á starf Ljóssins á Langholtsvegi, kveðst líka búin að fara í hugleiðslu í Krabbameins­félaginu og á gagnlegan fyrirlestur um næringu. „Það er margt í boði, það er kosturinn við að vera í Reykjavík. Því vel ég að fara í gegnum meðferðina hér þó ég eigi heima austur í Vopnafirði.“

Ég ætla mér í gegnum þetta og geri það á minn hátt, segir Þórunn um veikindin. Fréttablaðið/Stefán

Fjölskyldan dreifð um landið

Þórunn á tvö heimili, á Hauksstöðum í Vopnafirði og í Hvassaleitinu. „Maðurinn minn, Friðbjörn Haukur, er fyrir austan og hugsar um búskapinn, en við höfum fækkað fénu. Hekla, yngri dóttir okkar, er hjá mér, hún er fimmtán ára og gengur í Álftamýrarskóla. Eldri dóttirin, Kristjana, er flutt heim í Hauksstaði, nýútskrifuð úr heimspeki og að vinna fyrir austan. Var um helgina hjá mér og svo kemur Haukur og verður hjá mér í næstu lyfjagjöf. Sonurinn Guðmundur býr á Húsavík með sína fjölskyldu, þar er barnabarnið – svolítið langt frá. Guðmundur er starfandi lögreglumaður, hann er með BA í íslensku og er í mastersnámi í kennslufræðum og lögregluskólanum. Ég er stolt af börnunum mínum og finnst ég náttúrlega eiga alveg einstakt barnabarn! Svo búa mamma og pabbi hérna í næsta stigagangi, það eru forréttindi. Þetta er gamla hverfið mitt. Hér átti ég heima fram undir tvítugt.“

Mig langar að vita meira um foreldrana og fæ greið svör. „Pabbi heitir Egill Ásgrímsson, er bólstrari og var lengi á Bergstaðastræti. Mamma heitir Sigríður Lúthersdóttir, hún var í fyrsta landsliðinu í handbolta, vann mikið fyrir Ármann og ÍSÍ. Síðustu árin starfaði hún með pabba á verkstæðinu og þau eru enn að úti í bílskúr. Ég er lánssöm að hafa þau hér, við röltum á milli, jafnvel gegnum kjallarann, og Hekla getur alltaf leitað til þeirra. Þau eru fínar fyrirmyndir.“

Spurð hvernig Heklu líði með stöðuna hjá mömmunni svarar Þórunn: „Hekla er alveg mögnuð og stendur sig svakalega vel. Hún er svo skynsöm og klár stelpa. Þetta er engin óskastaða, en það eina sem ég get ráðið er hvernig ég mæti henni. Auðvitað er lærdómur að takast á við svona áfall sem lífið færir manni.“

„Ég splæsti í þetta sjónvarp þegar ég greindist,“ segir Þórunn sem gefur kollegunum stundum einkunnir gegnum Snapchat. Fréttablaðið/Stefán

Viðbrigði að vera aðgerðalaus

Þórunn hefur verið á þingi frá 2013 fyrir Norðausturkjördæmi og er formaður þingflokks Framsóknarflokksins. Hún segir það vera viðbrigði að þurfa að vera aðgerðalaus. „Mér finnst mikil áskorun að takast á við það að vera ekki á fullu – fyrir utan auðvitað dagana sem ég get ekkert gert. Ég hef verið svo virk og verkefnin svo mörg. En ég sagði stundum við krakkana mína þegar þeir voru minni að það væri hollt að leiðast stundum, svo þeir héldu ekki að það ætti alltaf að vera gaman. Nú verð ég að sýna stillingu! Annars prjóna ég sokka og sauma út,“ segir Þórunn brosandi og bendir á nýinnrammaðar myndir með hinni hlýlegu áletrun: Drottinn blessi heimilið. „Reyndar kalla lyfin fram beinverki þannig að ég verð kannski ekki alltaf í hannyrðastuði, fékk meira að segja verki í hársvörðinn og hálfgerð flensueinkenni,“ lýsir hún. „Lífið fer bara á hvolf en maður lærir eitthvað nýtt á hverjum degi og kynnist góðu fólki. Það er gefandi. Að ekki sé talað um allar kveðjurnar og stuðninginn sem ég hef fengið, bæði opinberlega og beint, ég er gríðarlega þakklát fyrir þetta allt. Það skiptir miklu máli að finna fyrir velvildinni, hún er ekkert sjálfgefin.“

Hekla er ókomin úr skólanum þennan daginn, Þórunn segir hana vera í valáfanga. „Í dag er heimilisfræði, henni finnst hún svo skemmtileg. Hún hefur bökunargenin úr ættinni hans Hauks, hann er afabróðir hennar. Við vorum svo heppin að fá hana í fjölskylduna fyrir rúmum tíu árum.“

Þórunn rifjar upp að þegar hún hóf þingmennskuna hafi henni fundist erfiðast að fara frá Heklu en stefnan hafi verið að fara heim um hverja helgi. „Það gekk svona mestmegnis,“ segir hún. „Svo var ég orðin svolítið lúin á þessum ferðalögum. Þegar aðrir voru komnir í frí síðdegis á föstudögum, átti ég eftir að fara yfir landið. Við ætluðum að breyta til, Haukur að vera meira í bænum og hann og bróðir hans, sem var líka með bú á Hauksstöðum, að skipta meira með sér verkum heima, en þá greindist bróðirinn með krabbamein og dó bara nokkrum vikum seinna. Þá breyttist það plan. Nú er Hekla komin hingað í skóla og Haukur kemur oftar suður en við ætlum að vera heima um páskana.“

Hún kveðst vera heima í öllum fríum og allt sumarið. „En maður þarf að vera vel giftur til að vera í þessu starfi – og ég er það. Ég er mjög lánsöm í lífinu, á góða fjölskyldu, góða vini og hef bara verið heppin með svo margt. Almennt verið heilsuhraust og getað gert það sem mér finnst skemmtilegt. En mér hefur aldrei fundist að ég ætti endilega að sleppa við allt. Það getur alveg eins verið ég eins og hver annar sem fær krabbamein. Einhverra hluta vegna var þetta í boði núna. Mamma greindist með krabbamein í lungum fyrir fjórum árum. Það leit ekkert sérlega vel út en hún er bara hress í dag, verður áttræð í næsta mánuði og er á fullu að ferðast, sýnir að það er allt hægt.“

Þarna er ég í mínu náttúrlega umhverfi, segir Þórunn og lánar okkur mynd.

Vissi strax að hann væri sá rétti

Nú langar mig að vita hvernig það kom til að hún gerðist bóndakona á Hauksstöðum, sem eru nánast uppi á Vopnafjarðarheiði. „Ég kláraði stúdentinn frá Versló en vissi ekki alveg hvað ég vildi verða og ákvað að prófa eitthvað nýtt. Sá auglýsingu frá Vopnafjarðarskóla um að þar vantaði kennara og hringdi. Þá þurfti að hringja í 97 á undan númerinu. Ég var ráðin. Svo var kennaraverkfall um haustið. Þá átti ég engan aur svo ég réð mig í sláturhúsið, þar sá ég Hauk og vissi um leið að hann yrði maðurinn minn. Samt var það mjög fjarri mér þá að gifta mig, þetta var bara það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég sá hann.“

Var hann svona sætur?

„Já, svo er hann bara svo einstök manneskja. Því kynntist ég betur þegar ég réð mig sem kaupakonu til hans næsta sumar og er líklega síðasta kaupakonan á Íslandi sem giftist bóndanum! Við eigum 32 ára brúðkaupsafmæli í sumar.“

Þórunn kveðst hafa verið viðloðandi skólann á Vopnafirði og ákveðið að taka Kennaraháskólann í fjarnámi. „Krakkarnir okkar voru þá byrjaðir í skóla, fóru klukkan hálf átta í skólabílinn en ég settist niður og fór að læra. Það var rosaleg vinna en mér gekk vel. Var með tölvu en netsambandið var bágborið, símalínan inn í Hauksstaði var enn lélegri en á aðra bæi í sveitinni, það kom síðar í ljós. Ég grínaðist oft með að „það væru svo þröngar leiðslurnar“ og það reyndist ekkert svo fjarstæðukennt. Þess vegna er ég svo ánægð núna með að það er að takast að ljósleiðaravæða allt landið. Það er gríðarlega mikilvægur áfangi. Þá getum við farið að tala um störf án staðsetningar og að fólk geti lært hvar sem er. Það er grundvallaratriði svo við höldum landinu í byggð að hafa góðar samgöngur og gott netsamband. Þegar ég byrjaði á þingi fyrir sex árum var ekki GSM-samband heima hjá mér og slæmt fastlínu- og netsamband. En ljósleiðarinn kom í vetur og nú sjáum við í fyrsta skipti meira en RÚV í sjónvarpinu. Vorum samt ekki inni í dreifikerfinu, heldur þurftum sjálf að setja upp móttakara. Nú er þetta allt komið og það er bylting.“

Forréttindi að búa afskekkt

Innt eftir íbúaþróun í Vopnafirði segir Þórunn margt gott að gerast þar núna. „Barnsfæðingum fjölgar, bæði í þorpinu og sveitinni, og mér finnst bjartara yfir en fyrir nokkrum árum. Unga fólkið er að flytja aftur heim og sér tækifærin. Ég vona að það haldi áfram, það þarf að vera þannig. Þegar ég fór til Vopnafjarðar 1984 var stundum bara ófært og fólk ætlaðist ekki til að komast neitt. Það er gjörbreytt í dag. Flugið er mikið öryggisatriði því við þurfum að keyra yfir hæsta fjallveg á landinu og þó við séum komin með breiðan og góðan veg þá koma vond veður á þessu fjalli. Það breytist ekki.“

Milli Egilsstaða og Hauksstaða eru 110 kílómetrar. Skyldi Þórunn sjálf hafa lent í illviðrum í vetrarferðum sínum? „Já, já, ég hef farið yfir fjöllin í alls konar færð og veðri og ekki alltaf séð milli stika en auðvitað fer ég ekki út í glórulausan byl. Ég ber virðingu fyrir náttúruöflunum, við erum svo smá gagnvart þeim. Einn vetur, af þessum sex síðan ég byrjaði á þingi, var snjóþungur, þá voru 30 kílómetra snjógöng á minni leið.“

Þó að Þórunn sé Reykjavíkurdama í grunninn finnast henni forréttindi að eiga heima á afskekktum stað eins og Hauksstöðum. „Margir mundu leggja mikið á sig fyrir að búa við svona aðstæður þar sem maður getur bara farið upp í brekku og verið í friði og tínt jurtir, hvort sem er í te eða krydd í mat. Uppáhaldið mitt er að fara á gönguskíði í tunglsljósi og ekkert truflar. Það er bara dásamlegt.“ Hún segir þó að stöku sinnum sleppi sumarið því að koma við, þegar „hann liggi“ í norðaustanátt. „En svo upplifum við líka dásamleg sumur á milli, góða daga og mikil hlýindi. Vorið var mjög gott í fyrra, kom snemma og var þurrt. Það er það sem maður óskar eftir um sauðburðinn.“

Sérverkefni Þórunnar

Samfélagsmiðlarnir komu við sögu í upphafi spjalls okkar og við endum á þeim líka.

„Ég er á Snapchat og segi ýmislegt þar sem mér dettur í hug og svo er ég á Instagram og held því áfram. Einnig er ég með hóp á fésbók sem heitir Sérverkefni Þórunnar fyrir mig og þá sem vilja fylgjast með mér og þar má fólk óska eftir að vera með en þar er ekkert til almennrar birtingar. Þar óska ég bara eftir jákvæðni og beiti húmornum óspart sjálf. Sumir segja að ég sé töffari og það getur vel verið. Ég er ekkert grimm samt, hvorki við sjálfa mig né aðra, eða það held ég ekki. En maður verður að sýna sjálfum sér ákveðni og aga um leið og maður hlífir sér eftir þörfum. Gleði, kærleikur, stefnufesta og ákveðni eru hugtök sem ég reyni að tileinka mér á hverjum degi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×