Martin Hermannsson og liðsfélagar hans hjá þýska liðinu Alba Berlin leika til úrslita í Evrópubikarnum í körfubolta en andstæðingur liðsins þar er spænska liðið Valencia.
Martin hefur leikið einkar vel á sínu fyrsta keppnis-tímabili með Berlínarliðinu en auk þess að vera komið í úrslit á þessum vettvangi tapaði liðið á sárgrætilegan hátt í úrslitaleik þýsku bikar-keppninnar fyrr á leiktíðinni og er í toppbaráttu í þýsku deildinni.Þetta er í annað skipti sem Alba Berlin fer í úrslit keppninnar en liðið laut í lægra haldi fyrir einmitt Valencia vorið 2010.
Valencia er öllu reynslumeira á þessu sviði en þetta er sjötti úrslitaleikur spænska liðsins í keppninni. Liðið hefur þrisvar sinnum farið með sigur af hólmi og tvisvar tapað í úrslitum. Alba Berlin bætir upp fyrir reynsluleysið með því að hafa afar reynslumikinn mann í brúnni.
Það er hinn 72 ára gamli Aito Garcia Reneses sem er í brúnni en hann hefur þjálfað marga af bestu leikmönnum Evrópu og Martin ber honum afar vel söguna. Segir hann mikinn kennara og hafsjó af fróðleik um körfubolta. Þá sé hann snillingur í að stilla spennustigið rétt fyrir jafna, spennandi og mikilvæga leiki.

„Það er auðvitað gríðarlega spenna sem fylgir því að fara í svona stóra leiki, en það er kannski það jákvæða við mig að ég er lítið að pæla í því hversu umfangsmiklir og stórir þessir leikir eru. Fyrir mér er þetta bara eins og hver annar leikur og það er kannski ekki fyrr en eftir að ég spila svona leiki að ég fer að hugsa um hversu þýðingarmiklir leikirnir eru. Ég er vanur því að spila undir pressu og þannig líður mér best. Ég ákvað það strax og ég kom hingað að mig langaði til að bera ábyrgð á því að liðinu gengi vel og það hræðir mig ekkert að vera með boltann í höndunum þegar mikið er undir og það sé undir mér komið hvort að liðið vinni eða tapi,“ segir Martin sem frá unga aldri hefur verið í lykilhlut-verki í þeim liðum sem hann hefur leikið með.
„Það hefur verið leitað til mín á ögurstundum í vetur og það er viðbúið að ég verði í stóru hlutverki í leikjunum gegn Valencia. Það eru forföll í leikstjórnandastöðunni hjá okkur þar sem einn af þeim er meiddur og annar má ekki spila þar sem hann hefur spilað með öðru liði í Evrópubikarnum fyrr á leiktíðinni. Ég fékk hvíld í deildarleiknum okkar um helgina til þess að búa mig undir það að spila í allt að 40 mínútur í þessum þremur leikjum. Það hefur verið mikið álag á okkur undanfarið en næstu daga getum við einbeitt okkur alfarið að leikjunum við Valencia,“ segir hann um komandi verkefni en leikið verður í Valencia í dag, Berlín á föstudaginn og svo aftur í Valencia á mánudaginn kemur ef þess þarf.

„Það er mikil stemming fyrir þessum leikjum í Berlín og ég finn það vel hjá stuðningsmönnum okkar að það er spenna fyrir heimaleiknum á föstudaginn kemur. Vonandi náum við að vinna í kvöld til þess að geta klárað þetta fyrir framan okkar fólk í höllinni okkar. Foreldrar mínir, systkini og systir mömmu verða á svæðinu í heimaleiknum okkar og þá hafa þó nokkrir Íslendingar sett sig í samband við mig með það í huga að fá miða á leikinn í Berlín,“ segir landsliðsmaðurinn augljóslega spenntur.
