Innlent

Kraftlyftingakonur sem borða lambakjöt og hafragraut

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Tvær kraftlyfingakonur á Selfossi komu heim hlaðnar af verðlaunapeningum en þær kepptu báðar á Special Olympics í Abu Dhabi. Báðar segjast þær vera svona sterkar því þær séu úr sveit og borði lambakjöt og hafragraut.

Þeir sem æfa kraftlyftingar hjá Suðra, sem er íþróttafélag fatlaðra á Selfossi æfa í Crossfit Selfoss undir styrkri stjórn Örvars Arnarssonar. María Sigurjónsdóttir sem er frá Miðmörk undir Eyjafjöllum og Valdís Hrönn Jónsdóttir sem er frá Gillastöðum í Dalabyggð, báðar búsettar á Selfossi í dag, voru meðal 38 keppenda frá Íslandi sem tóku þátt í Special Olympics í Abu Dhabi í síðasta mánuði.

Báðar náðu þær frábærum árangri í kraftlyfingum og komu heim með nokkra verðlaunapeninga utan um hálsinn. María fékk t.d. verðlaun fyrir allar keppnisgreinarnar sínar en það var í réttstöðu, bekkpressu og hnébeygju og sameiginlegum greinum. Valdís fékk líka verðlaun   í hnébeygju, réttstöðu, bekknum og svo sameiginlegum greinum.  Báðar fóru þær því fjórum sinnum á verðlaunapall til að sækja verðlaunapeningana sína.

En hvað var skemmtilegast á ólympíuleikunum ?

„Bara allt, kynnast öllu fólkinu, vera þarna og hafa mjög gaman, það var bara allt“, segir Valdís og María tekur heilshugar undir það með henni.

Valdís og María eru mjög duglegar að æfa kraftlyftingar og segja lyftingarnar mjög skemmtilega íþrótt. En af hverju eru þær svona sterkar?

„Ég kemur úr sveit segir María og Valdís segist líka koma úr sveit. „Það hlítur að vera það, lambakjötið og hafragrauturinn“, segja þær báðar hlægjandi.

En hvað er svona skemmtilegt við kraftlyfingarnar?

„Allt bara, félagsskapurinn, þjálfarinn og bara allt saman. Svo er bara svo ógeðslega gaman að lyfta, maður fær svo mikla útrás í þessu, þannig að þetta er bara rosalega gaman“, segir Valdís um leið og þær segjast báðar mæla með kraftlyfingum, sem skemmtilegri íþrótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×