Erlent

Brúnei leggur dauðarefsingu við samkynhneigð

Kjartan Kjartansson skrifar
Soldáninn af Brúnei.
Soldáninn af Brúnei. Vísir/EPA
Dauðarefsing verður lögð við kynlífi samkynhneigðra með gildistöku íslamskra laga í asíska smáríkinu Brúnei í dag. Samkynhneigð var ólögleg í landinu fyrir en breytingin nú hefur vakið fordæmingu alþjóðasamfélagsins.

Hassanal Bolkiah, soldán Brúnei, sagði að leggja þyrfti aukna áherslu á íslömsk lög í ávarpi til þjóðar sinnar í dag. Nýju lögin fjalla einnig um önnur brot. Þannig verður hægt að refsa þjófum með aflimun, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Lögin eiga aðallega að gilda um múslima í landinu sem er um tveir af hverjum þremur landsmönnum.

Áður lá tíu ára fangelsi við samkynhneigð í landinu en nú munu lög landsins leyfa að samkynhneigðir séu grýttir til bana. Dauðarefsing verður lögð við fleiri brotum, þar á meðal nauðgunum, framhjáhaldi, ránum og móðgunum við Múhammeð spámann.

Brúnei tók upp svonefnd sjaríalög árið 2014 og rekur nú tvöfalt réttarkerfi, annað trúarlegt en hitt veraldlegt. Soldáninn sagði þá að ný hegningarlög tækju gildi á nokkrum árum.

Sameinuðu þjóðirnar segja að nýju lögin séu „grimmúðleg, ómannúðleg og niðurlægjandi“. Þau séu alvarlegt bakslag fyrir vernd mannréttinda. Þá verður þungunarrof refsivert að viðlagðri húðstrýkingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×