Íslenski boltinn

Ef menn ætla að gagnrýna dómgæslu í sumar þá er nú betra að mæta á þennan fund

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aðstoðardómari í PepsiMax deildinni.
Aðstoðardómari í PepsiMax deildinni. Vísir/Daníel
Það styttist óðum í að knattspyrnusumarið fari af stað en Pepsi Max deild karla hefst seinna í þessum aprílmánuði.

Knattspyrnusamband Íslands vill vekja athygli á því að talsverðar breytingar hafi orðið á knattspyrnulögunum á milli tímabila.

KSÍ hefur því skipulagt kynningarfundi á breytingunum fyrir þjálfara og forráðamenn liðanna í íslenska fótboltanum.

Breytingarnar snúa meðal annars að nýjum áherslum ef dæma á hendi á leikmenn, hvernig aukaspyrnur, markspyrnur og dómaraköst fara hér eftir fram og hvaða kröfum markverðir verði nú að fylgja í vítaspyrnum.

Varamenn mega hér eftir fara beint út af vellinum við næstu hliðarlínu og leikmenn geta fengið spjald við að fagna marki óhóflega þótt að markið sé dæmt af. Þá verða sóknarmenn að vera í minnsta kosti eins metra fjarlægð frá varnarveggnum í aukaspyrnum. Þetta og margt fleira er að breytast milli ára.

Breytingarnar á knattspyrnulögunum taka strax gildi í fyrstu umferð Mjólkurbikarsins þann 10. apríl næstkomandi.

Það má jafnvel líta á þetta em svo að ef menn ætla að gagnrýna dómgæslu í sumar þá er nú betra að mæta á einn þessara funda.

Tímasetning kynningarfunda KSÍ er sem hér segir:

Mánudaginn 8. apríl á 3. hæð í höfuðstöðvum KSÍ klukkan 16.30

Mánudaginn 8. apríl í Hettunni á Egilsstöðum klukkan 18.00

Þriðjudaginn 9. apríl í Hamri á Akureyri klukkan 20.00

Hér má líka sjá samantekt á reglubreytingunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×