Erlent

Yfir­gnæfandi meiri­hluti með hertri vopna­lög­gjöf

Atli Ísleifsson skrifar
Stuart Nash lögreglumálaráðherra tók til máls í þinginu fyrr í dag.
Stuart Nash lögreglumálaráðherra tók til máls í þinginu fyrr í dag. Getty
Yfirgnæfandi meirihluti nýsjálenska þingsins greiddi í dag atkvæði með frumvarpi um að vopnalöggjöf landsins verði hert. Alls greiddu 119 þingmenn atkvæði með frumvarpinu, en einn greiddi atkvæði gegn.

Atkvæðagreiðslan fór fram rúmum hálfum mánuði eftir hryðjuverkaárásina í Christchurch þar sem fimmtíu manns létu lífið og tugir særðust.

„Við viljum aldrei aftur sjá viðlíka árás í landinu okkar. Við verðum að bregðast hratt við,“ sagði Stuart Nash lögreglumálaráðherra í þinginu.

Frumvarpið felur í sér bann við hálfsjálfvirkum skotvopnum, líkt og þau sem hryðjuverkamaðurinn notaðist við í Christchurch. Sagði Nash allt of marga hafa aðgang að hættulegum skotvopnum án réttlætanlegrar ástæðu, sem skapi hættu fyrir almenning.

Eini þingmaðurinn sem greiddi atkvæði gegn frumvarpinu var David Seymore frá hægriflokknum ACT, en hann sagði lagabreytinguna einkennast af fljótfærni. Seymore er eini þingmaður ACT.

Þingið þarf að greiða atkvæði um frumvarpið í tvígang til viðbótar áður en það verður að lögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×