Innlent

Engar hefðir en nóg af páska­eggjum í Kvenna­at­hvarfinu

Gígja Hilmarsdóttir skrifar
Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf segir marga íbúa vera í húsi. Sumar skelli sér þó í ferðalag eða í boð um páskana.
Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf segir marga íbúa vera í húsi. Sumar skelli sér þó í ferðalag eða í boð um páskana. fréttablaðið/stefán
Margt hefur verið um manninn í Kvennaathvarfinu undanfarnar vikur og verður það áfram um páskana ef að líkum lætur, segir Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Samtaka um kvennaathvarf. Hún segir rúmlega tuttugu íbúa vera í húsinu í dag.

Engar sérstakar hefðir eða venjur eru í Kvennaathvarfinu yfir páskana að sögn Sigþrúðar, enda séu ekki allir kristinnar trúar eða vanir að halda páska. „Hér er allt til alls, góður matur og húsið hefur verið skreytt með páskagreinum. Fólk hagar þessu bara eftir eigin höfði.“

Allir fá páskaegg

Páskafrí í skólum hefur þau áhrif að það er líf og fjör í húsinu. Sigþrúður segir dagana spilaða af fingrum fram en að haft sé ofan af fyrir börnunum.

Margir hafa hugsað til þeirra í athvarfinu í aðdraganda páska að sögn Sigþrúðar. „Það lá hér súkkulaðistraumurinn til athvarfsins,“ segir Sigþrúður en margir gerðu sér ferð til þeirra og færðu íbúum páskaegg. Hún segir þær hafa fengið mun fleiri egg en þurfti, þau fóru þó ekki til spillis.

„Við vorum aflögufærar svo við höfðum samband við konur sem hafa búið hjá okkur áður og buðum þeim að fá þau páskaegg sem voru eftir,“ segir Sigþrúður.

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×