Erlent

Páfi lofar slökkviliðsmenn sem björguðu Maríukirkjunni

Kjartan Kjartansson skrifar
Páfi ávarpaði mannfjölda á Péturstorginu í Róm í dag.
Páfi ávarpaði mannfjölda á Péturstorginu í Róm í dag. Vísir/EPA
Frans páfi kaþólsku kirkjunnar þakkaði frönskum slökkviliðsmönnum sem lögðu líf sitt að veði til að bjarga því sem bjargað varð af Maríukirkjunni í París á mánudag. Hann vill að dómkirkjan verði endurbyggð sem fyrst. Forseti Frakklands hefur heitið því að endurreisa hana á fimm árum.

Kirkjuspíra Maríukirkjunnar sögufrægu hrundi og timburþak hennar er gerónýtt eftir eldsvoðann sem braust út síðdegis á mánudag. Tveir turnar kirkjunnar standa þó enn og fjölda listmuna var bjargað. Um fjögur hundruð slökkviliðsmenn börðust við eldinn fram á aðfaranótt þriðjudags.

„Þakklæti gjörvallrar kirkjunnar fer til þeirra sem gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að bjarga basilíkunni og hættu jafnvel lífi sínu til þess,“ sagði páfi við tugi þúsunda kaþólikka á Péturstorgi í dag.

Páfagarður hefur lofað því að veita sérfræðiráðgjöf við endurbyggingu Maríukirkjunnar, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði í sjónvarpsávarpi í gær að hann teldi mögulegt að endurbyggja kirkjuna á fimm árum.


Tengdar fréttir

Stórt og flókið verkefni bíður Frakka

Miklu fé hefur verið heitið til enduruppbyggingar Notre Dame eftir brunann á mánudag. Sérfræðingar frá Páfagarði og arkitektar sem endurreistu Windsor-kastala bjóða aðstoð sína. Þrívíddarskannanir til af kirkjunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×