Erlent

Lægðin í Simbabve dýpkar enn

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Matvara í Simbabve verður stöðugt dýrari og dýrari.
Matvara í Simbabve verður stöðugt dýrari og dýrari. Nordicphotos/AFP
Brauðverð tvöfaldaðist í Harare, höfuðborg Simbabve, á einum degi í gær. Reuters greindi frá en Afríkuríkið hefur átt við mikla efnahagsörðugleika og óðaverðbólgu að stríða á þessari öld. Brauðverð jafngilti í gær í um 17,5 prósentum af meðallaunum í landinu.

Ástandið má einnig rekja til mikilla þurrka sem hrjá landið og þess að hitabeltislægðin Idai olli miklu tjóni í austurhluta landsins í mars.

„Brauð er orðið lúxusvara. Hvernig á fólk að hafa efni á því með þessu áframhaldi? Ríkisstjórnin verður að gera eitthvað áður en það leysist allt upp í vitleysu,“ hafði miðillinn eftir Sarah Chisvo, þriggja barna móður í Harare.

Verðbólga er ekki orðin jafnslæm og hún var á síðasta áratug. Árið 2009 ákváðu yfirvöld að skipta úr Simbabvedalnum yfir í Bandaríkjadal þegar verðbólga hafði staðið í 500 milljörðum prósenta ári áður. En Bandaríkjadalir hafa verið af skornum skammti á þessu ári. Í febrúar ákvað ríkisstjórn Emmersons Mnangagwa forseta því að taka upp nýjan gjaldmiðil, RTGS-dal.

Verðbólga heldur hins vegar áfram. Laun hækka ekki til jafns við verðbólguna og því er óánægja með stjórn Mnangagwas sögð aukast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×