Viðskipti innlent

Þórarinn tekur sæti í stjórn IKEA

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þórarinn Ævarsson framkvæmdastjóri IKEA.
Þórarinn Ævarsson framkvæmdastjóri IKEA. Fréttablaðið/Ernir
Undirbúningur að ráðningu eftirmanns Þórarins Ævarssonar, framkvæmdastjóra IKEA á Íslandi, er hafinn og er tilkynningar að vænta um það á næstu vikum, að því er fram kemur í tilkynningu frá stjórn IKEA. Þórarinn lætur af störfum um næstu mánaðamót að eigin ósk eftir fjórtán ár í starfi, líkt og Vísir greindi frá í morgun, en hann tekur sæti í stjórn IKEA við starfslok.

Í tilkynningu segir að eigendur og stjórn IKEA á Íslandi þakki Þórarni fyrir vönduð og vel unnin störf í þágu félagsins. Þeir óski honum velfarnaðar og hafi jafnframt áform um að starfa með honum á öðrum vettvangi.

Mun Þórarinn taka sæti í stjórn IKEA á Íslandi eftir að hann lætur af störfum sem framkvæmdastjóri en eins og áður segir er tilkynningar að vænta um eftirmann hans á næstu vikum.

Haft er eftir Þórarni í tilkynningu að hann líti til baka með stolti yfir starfið sem unnið hafi verið innan fyrirtækisins undanfarin fjórtán ár. Hann kveðji í sátt og segir mesta eftirsjá að vinnustaðnum og samstarfsfólkinu, en að jafnframt sé kominn tími á nýjar áskoranir.

Þórarinn tók við starfi framkvæmdastjóra IKEA árið 2006 en áður hafði hann starfað sem bakarameistari og yfirbakari hjá Sveini bakara og sem verslunar-, framkvæmda- og rekstrarstjóri hjá Domino´s á Íslandi og í Danmörku. 

Hann hefur undanfarið ár viðrað skoðanir sínar um atvinnurekstur á Íslandi og fór til að mynda mikinn á Málþingi ASÍ og Neytendasamtakanna á dögum þar sem hann gagnrýndi verðlag á íslenskum veitingastöðum


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×