Innlent

Icesave-lekinn í greinargerð FBI um Assange: „10 Reykjavik 13“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Heill kafli í greinargerð FBI um Julian Assange fjallar um Icesave-lekann.
Heill kafli í greinargerð FBI um Julian Assange fjallar um Icesave-lekann. Vísir/EPA

Í greinargerð bandarísku alríkislögreglunnar FBI um mál Julians Assange er sérstaklega fjallað um leyniskýrslur bandaríska sendiráðsins um samskipti íslenskra ráðamanna í tengslum við Icesave-málið. Trúnaðargögnunum var lekið til WikiLeaks árið 2010.



Í greinargerð FBI rökstyður Megan Brown, lögreglufulltrúi FBI, málatilbúnaðinn gegn Assange. Honum er gefið að sök að hafa tekið þátt í samsæri um þjófnað á gögnum úr tölvum hins opinbera í samstarfi við Chelsea Manning sem var dæmd fyrir að leka þúsundum trúnaðarskjala til WikiLeaks. Málatilbúnaðurinn byggir meðal annars á afritum af samtölum Assange og Manning.



Assange, stofnandi WikiLeaks, var handtekinn að morgni fimmtudagsins 11. apríl í sendiráði Ekvadors í Lundúnum hvar hann hafði dvalið frá árinu 2012 af ótta við að vera framseldur til Bandaríkjanna.



Í greinargerðinni er einn kafli sem hverfist um leka á trúnaðargögnum bandaríska sendiráðsins um Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og Albert Jónsson fyrrverandi sendiherra Íslands í Bandaríkjunum.



Ástæðan fyrir því að Icesave-lekinn er sérstaklega tilgreindur er sú að hann er talinn varpa frekara ljósi á eðli þeirra gagna sem lekið var. Skrárnar hafi verið skýrt merktar trúnaðargögn.



Í gegnum samskiptakerfi utanríkisþjónustu Bandaríkjanna eða eins konar innra neti er Manning sögð hafa komist yfir skjalið „10 Reykjavik 13“ þar sem fjallað var um Icesave málið.



Manning á að hafa viðurkennt að hafa brennt skjölin á geisladisk 15. febrúar árið 2010, farið með hann heim til sín og hlaðið skjölunum inn í fartölvuna sína og þaðan inn á WikiLeaks. Í greinargerðinni kemur fram að þessi skjöl hafi verið merkt sem trúnaðarskjöl.



Manning er í greinargerðinni sögð hafa skoðað þrjár skrár merktar „Sigurdardottir.pdf,“ „Skarphedinsson.pfd“ og „Jonsson. Pdf.“ en þetta voru leyniskýrslur bandaríska utanríkisráðuneytisins um Jóhönnu, Össur og Albert.


Tengdar fréttir

Telur rangt að framselja Assange

Corbyn segir það rangt að framselja Assange eftir að hann hafi með blaðamennsku sinni afhjúpað voðaverk Bandaríska hersins sem framin voru í Írak og Afganistan.

Svipting hælis Assange hættulegt fordæmi

Stofnandi WikiLeaks handtekinn í ekvadorska sendiráðinu. Bandaríkin fara fram á framsal og vilja rétta yfir honum vegna samráðs við Chelsea Manning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×