Íslenski boltinn

Brynjar Björn: Fólk þarf að fara að kaupa miða núna ef það ætlar að mæta

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
Brynjar Björn Gunnarsson er þjálfari HK.
Brynjar Björn Gunnarsson er þjálfari HK. mynd/hk
HK tapaði í dag sinum fyrsta leik í Pepsi Max deildar karla gegn FH. FH vann 2-0 og komust yfir snemma í leiknum. Brynjar Björn Gunnarsson þjálfari HK var samt ánægður með frammistöðuna gegn þessu sterka liði FH.

„Mér fannst frammistaðan vera nokkuð góð. Við settum þá undir nokkuð góða pressu og unnum boltann oft á góðum stöðum. Við sofnuðum á verðinum þarna einu sinni í fyrri hálfleik og síðan fannst mér þeir þurfa að hafa full lítið fyrir öðru markinu,” sagði Brynjar Björn Gunnarsson þjálfari HK um frammistöðu sinna manna í leiknum.

HK voru mikið með boltann í seinni hálfleik en áttu erfitt með að skapa sér færi.

„Við vorum að spila á móti góðu liði og þá er oft erfitt að skapa færi. Við áttum töluvert af hornum og aukaspyrnum. Við erum vanir að fá aðeins meira út úr því. Heilt yfir fannst mér við vera inni í leiknum og við áttum séns. Jafnvel í stöðunni 2-0 hafði ég trú á að við myndum sækja eitt mark eða jafnvel jafna leikinn.”

Brandur Olsen skoraði annað mark leiksins eftir slæm mistök í vörn HK. Brynjar er sannfærður um að það verði ekki fleiri svona mörk í sumar.

„Það verða ekki fleiri svona mörk. Þetta voru ein mistök og við tökum það. Það þarf að klára færið og það var gert gríðarlega vel. Það eru bara góðir leikmenn sem gera það.”

HK byrja tímabilið á að spila á móti FH, Breiðablik og Stjörnunni. Þetta er ekki auðveldasta prógrammið til að byrja sumarið á en Brynjar hefur ekki áhyggjur af því.

„Þetta er bara gott. Þetta var erfiður en frábær leikur í dag. Þetta er svona leikur sem við getum unnið en við getum líka tapað. Ég geri alltaf ráð fyrir að við vinnum.”

HK fá granna sína í Breiðablik í heimsókn í næsta leik. Þetta ætti að vera grannaslagur af bestu gerð og Brynjar gerir ráð fyrir að Kópavogsbúar munu fjölmenna.

„Ég geri ráð fyrir rúmlega fullum Kór. Fólk þarf að fara að kaupa miða núna ef það ætlar að mæta. Maður er bara spenntur fyrir fyrsta heimaleik HK í efstu deild í 11 ár.”


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×