Íslenski boltinn

Ágúst Þór: Ætlum að leita út fyrir landsteinana

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ágúst Þór var ánægður með stigin þrjú í dag.
Ágúst Þór var ánægður með stigin þrjú í dag. Vísir/Anton
Ágúst Þór Gylfason þjálfari Breiðabliks var afskaplega ánægður eftir 2-0 sigur hans manna í Grindavík í dag.

„Þetta var erfið fæðing og það var erfitt að eiga við Grindvíkingana, þeir voru þéttir og það var erfitt að brjóta þá. Við vorum með vindinum í fyrri hálfleik en mér fannst við ekki ná að skapa nógu mikið af færum. Í seinni hálfleik þurftu þeir að koma aðeins ofar og þá opnaðist fyrir okkur. Við nýttum okkur það og skoruðum tvö góð mörk,“ sagði Ágúst í samtali við Vísi að leik loknum í dag.

„Það er mikilvægast af öllu að fá þrjú stig og eins og vitum er ekki mikið af glansleikjum í fyrstu umferðunum en þrjú stig er það mikilvægasta.“

Sigur Blika í dag var nokkuð sanngjarn og Grindvíkingar náðu of sjaldan að opna vörn gestanna og skapa sér opin færi.

„Ég held að þetta hafi verið sanngjarnt. Ég er mjög sáttur með strákana og vinnuframlagið í liðinu. Ég hefði eiginlega ekki getað beðið um það betra.“

Blikar hafa fengið þrjá nýja leikmenn til liðs við sig á síðustu vikum. Guðjón Pétur Lýðsson kom frá KA fyrir skömmu og í vikunni bættust þeir Höskuldur Gunnlaugsson og Arnar Sveinn Geirsson í hópinn. Það vakti athygli að þeir fóru allir beint inn í byrjunarliðið og Ágúst sagði að hann hefði viljað fá ferska strauma inn í liðið.

„Við höfum ekki verið að fá mikið af úrslitum í síðustu æfingaleikjum og ég ákvað að koma þeim öllum inn í byrjunarliðið og sjá hvort það myndi breyta einhverju og það gerði það.“

Í sambandi við komu Arnars Sveins hefur verið rætt um það að Jonathan Hendrickx sé á leið frá Blikum.

„Ég á von á að hann fari til Belgíu í glugganum. Við nýtum hann fram að því. Það má alveg reikna með að við styrkjum okkur, við erum að skoða það en ekkert öruggt. Við erum þá að leita út fyrir landsteinana.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×