Innlent

Áform um lokað sjókvíaeldi í Eyjafirði sögð í uppnámi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Rögnvaldur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Akvafuture ehf.
Rögnvaldur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Akvafuture ehf. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Ráðamenn Akvafuture, sem undirbúið hafa laxeldi í lokuðum kvíum í Eyjafirði, óttast að sú vinna sé til einskis vegna fiskeldisfrumvarps sjávarútvegsráðherra. Þeir segjast vera með umhverfisvænt lokað kerfi sem hljóti að vera framtíðin. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2. 

Laxeldiskvíar norska fyrirtæksins eru nú á þremur stöðum í Norður-Noregi en hugmyndin er að nota samskonar kvíar til að byggja upp tuttugu þúsund tonna laxeldi í Eyjafirði. 

„Þetta svínvirkar,“ segir Rögnvaldur Guðmundsson, framkvæmdastjóri Akvafuture ehf., en hann er Bolvíkingur og lærður sjávarútvegsfræðingur frá Háskólanum á Akureyri. 

Lokaðar sjókvíar, samskonar þeim sem Akvafuture vill nota í Eyjafirði, eru nú á þremur svæðum í Norður-Noregi.Mynd/Akvafuture.
Starfsemi systurfyrirtækis Akvafuture í Noregi hófst fyrir tveimur árum, þar starfa nú um fjörutíu manns og framleiðslan stefnir í sex þúsund tonn í ár, - af fiski sem Rögnvaldur segir aldrei hafa séð annað en níðsterkan svartan dúk, sem hann veifar. 

Akvafuture hefur frá því haustið 2017 undirbúið umsókn á eldi í lokuðum kvíum á sex stöðum í Eyjafirði. 

„Það er ekki laxalús sem kemur á fiskinn okkar. Við stjórnum lífkerfinu í þessum kvíum okkar. Og við tökum upp töluverðan hluta, - stærstan hluta, af úrganginum sem fellur til við eldið.“ 

Úrgangurinn er svo endurnýttur í lífeldsneyti. 

„Og er notaður til að drífa strætó í Þrándheimi í Noregi.“

Stærstur hluit af úrganginum, sem fellur til, er endurnýttur til að knýja strætisvagna í Þrándheimi.Mynd/Akvafuture.
Rögnvaldur segir áformin í Eyjafirði nú í uppnámi, vegna ákvæðis í frumvarpi ráðherra um að firðir sem ekki hafa verið burðarþolsmetnir, fari í útboð. Þetta þýði að fyrirtæki sem unnið hafi að umhverfismati á viðkomandi svæði fá ekki að halda þeirri vinnu áfram. 

„Við höfum miklar áhyggjur af því að sú mikla vinna, sem við erum þegar búnir að leggja í, hún verði til einskis.“ 

Hann segist ekki vera að biðja um forgang heldur að jafnræðis verði gætt og nefnir sem dæmi Ísafjarðardjúp, sem búið sé að burðarþolsmeta. 

„Ef það svæði á ekki að fara í útboð þá finnst okkur við ekki sitja við sama borð og önnur fyrirtæki, sem þegar hafa haslað sér völl hér við Ísland.“

Ráðamenn Akvafuture vonast til að meiri sátt geti náðst um fiskeldi í lokuðum sjókvíum sem þessum.Mynd/Akvafuture.
Rögnvaldur kveðst vona að meiri sátt geti náðst um sjókvíaeldi í lokuðum kerfum. 

„Ég er ekki að segja að við séum með einu lausnina. Það er fullt af fyrirtækjum í Noregi sem er að vinna allskonar þróunarstarf í kringum lokuð, umhverfisvæn kerfi. Þetta hlýtur að vera framtíðin,“ segir framkvæmdastjóri Akvafuture ehf. 

Hér má sjá viðtalið við Rögnvald:


Tengdar fréttir

Lagði fram frumvarp um fiskeldi

Í frumvarpinu er meðal annars lagt til að áhættumat erfðablöndunar verði lögfest og heildarframleiðslumagn frjórra laxa byggi á því mati.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×