Erlent

Efni sem valdið hefur fæðingargöllum hreinsað

Hallgerður Kolbrún E Jónsdóttir skrifar
Bien Hoa flugstöðin á meðan á Víetnamstríðinu stóð.
Bien Hoa flugstöðin á meðan á Víetnamstríðinu stóð. Getty/David Hume Kennerly
Bandaríkin hafa sett af stað margra milljón dollara verkefni til að hreinsa flugherstöð í Víetnam þar sem Bandaríkjaher notaði til að geyma efnavopnið Agent Orange. BBC greinir frá. 

Verkefnið mun spanna tíu ár, en rúmir fjórir áratugir eru liðnir síðan Víetnam stríðinu lauk, og mun verkefnið kosta um 20 milljarða íslenskra króna. 

Bien Hoa flugherstöðin er talin mengaðasti staður landsins. Efninu Agent Orange var dreift af Bandaríkjaher yfir skóga landsins til að staðsetja felustaði óvinahersins. Það inniheldur virka efnið dioxin, sem er eitt mest eitraða efni sem finnst og talið er að það hafi valdið auknum tilfellum krabbameina og fæðingargalla á svæðinu.

Víetnamska ríkið hefur gefið út að margar milljónir manns hafi fundið fyrir fylgikvillum vegna efnisins og að 150.000 börn hafi fæðst með alvarlega fæðingargalla vegna þess.

Í Bien Hoa hefur efnið mengað jarðveginn sem og nærliggjandi ár.

Efnið finnst í fjórum sinnum hærra hlutfalli í Bien Hoa en á Danang flugvelli, þar sem sambærilegu verkefni lauk í nóvember síðasta árs.

Í tilkynningu frá þróunaraðstoð Bandaríkjanna, USAID, sem sér um hreinsunina, kemur fram að svæðið sé mengaðasta dioxin svæðið í Víetnam.

Áætlað er að meira en 80 milljón lítrum af Agent Orange var dreift af Bandaríkjaher yfir Suður-Víetnam á árunum 1962 til 1971.

Læknar í Víetnam fóru að taka eftir auknum tilfellum fæðingargalla á 7. áratugnum, sem og krabbameini og öðrum sjúkdómum sem talin eru tengjast  efninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×