Erlent

Ísraelar nálægt Gaza fá frítt á Eurovision

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Eurovision er fyrirferðamikið í Tel Aviv þessa dagana.
Eurovision er fyrirferðamikið í Tel Aviv þessa dagana. EPA/ABIR SULTAN
Ríkisútvarp Ísraels mun bjóða íbúum í suðurhluta Ísraels á undanúrslitakvöld og æfingarnar í aðdraganda Eurovision-söngvakeppninnar, þeim að kostnaðarlausu. Ætlunin er að sýna stuðning með þeim samfélögum Ísraela sem urðu hvað verst úti í flugskeytaárásum síðustu helgar.

Öll þau sem búa í um 40 kílómetra fjarlægð frá Gaza-svæðinu munu geta nálgast ókeypis miða á viðburðina. Þó svo að yfirskrift miðagjafarinnar sé samstaða með íbúum suðurhlutans setja greinendur ísraelskra miðla hana í samhengi við miðasöluvandræði ríkisútvarpsins.

Þrátt fyrir að selst hafi upp á úrslitakvöldið 18. maí eru ennþá 2000 miðar óseldir á fyrra undankvöldið, sem fram fer á þriðjudag í næstu viku. Þessi staða er sögð fordæmalaus í sögu Eurovision, aldrei áður hafa jafn margir miðar verið óseldir svo stuttu fyrir keppnina. Miðasalan á æfingarnar tvær fyrir hvort undankvöldið hafa gengið ennþá verr.

Átök helgarinnar voru þau mestu í áraraðir. 25 Palestínumenn og fjórir Ísraelsmenn féllu í átökunum, Ísraelsher segir að 690 eldflaugum og sprengjum hafi verið skotið að suðurhluta Ísrael og þar af hafi 240 verið skotnar niður. Á móti segjast Ísraelsmenn hafa gert árásir á 350 skotmörk á Gasa. Stríðandi fylkingar sömdu um vopnahlé á mánudag.

Eftir töluverðar vangaveltur er jafnframt komið á hreint að poppdrottningin Madonna mun stíga á svið á úrslitunum, laugardagskvöldið 18. maí. Ísraelskir miðlar segja að hún muni taka tvö lög; eitt sígilt og hitt af nýrri plötu söngkonunnar. Ætlað er að hún muni flytja ofursmellinn Like a Prayer, sem gerði allt vitlaust undir lok níunda áratugarins, og lagið Future sem hún gerði með rapparanum Quavo úr Migos. Lagið verður á plötunni Madame X sem Madonna hyggst gefa út í sumar.


Tengdar fréttir

Samið um vopnahlé á Gaza

Ísraelski herinn nam í morgun úr gildi viðbúnað sem verið hefur í suðurhluta Ísraels síðustu daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×