Undir lok ársins 2015 var bið eftir gerviliðsaðgerð á sjúkrahúsinu á Akureyri orðin mjög löng. Meðalbiðtími eftir aðgerð var um eitt ár og margir þurftu að bíða lengur. Árið 2016 var hins vegar ráðist í sérstakt átak sem hefur skilað sér í rúmlega tvöföldun á fjölda aðgerða.
Árið 2015 voru framkvæmdar 175 slíkar aðgerðir, árið eftir var talan komin upp í 347. Á síðasta ári voru framkvæmdar 430 aðgerðir og í janúar hafði aðeins þriðjungur þeirra sem eru á biðlista þurft að bíða í meira en þrjá mánuði. Árangurinn náðist ekki síst með því að stytta þann tíma sem sjúklingurinn þarf að dvelja á sjúkrahúsinu.


„Þetta er gert með því að undirbúa sjúklingana, undirbúa starfsfólkið mjög vel fyrir þetta með góðri sjúkraþjálfun, með góðri verkjastillingu og góðri tækni og að fólk hafi allar þær upplýsingar til þess að batinn gangi fljótt og vel og fyrir sig,“ segir Sigurður.
Sjúkrahúsið fær greiðslur frá ríkinu vegna aðgerðanna og hinn aukni fjöldi aðgerða hefur því vænkað hag sjúkrahúsins.
„Það hefur þýtt það að við höfum getað eflt okkur hvað varðar starfsfólk sérstaklega og búnað jafn vel sem gerir okkur sterkari sem sjúkrahús í heild sinni til þess að veita aðra þjónustu líka, þannig að þetta hefur haft virkilega haft góð áhrif hérna inn á sjúkrahúsið.“