Íslenski boltinn

Óli Jó neitaði að ræða Gary Martin eftir leik

Guðlaugur Valgeirsson skrifar
Ólafur Jóhannesson og Bjarni Ólafur Eiríksson voru kátir eftir leik í Árbænum
Ólafur Jóhannesson og Bjarni Ólafur Eiríksson voru kátir eftir leik í Árbænum vísir/daníel
Ólafur Jóhannesson þjálfari Vals var sáttur með sigur sinna manna gegn Fylki í kvöld. Óli tók það fram fyrir viðtal að hann vildi aðeins spurningar um leikinn í kvöld og vildi engar spurningar út í mál Gary Martin sem hefur vakið mikla athygli undanfarna daga.

„Ég er ánægður með stigin. Fylkisliðið er gott og það er erfitt að spila á móti þeim og við höfum í gegnum tíðina átt hörkuleiki við þá og ég er ánægður með að þetta datt okkar megin í kvöld.”

Valsmenn misstu tvo menn útaf vegna meiðsla í kvöld en Óli gat lítið sagt hversu alvarlegt það væri.

„Ég er nú bara að labba útaf vellinum núna þannig ég veit ekki mikið en annar fór á sjúkrahús í hálfleik (Lasse Petry).”

Valur á annan erfiðan leik fyrir höndum á mánudaginn þegar þeir koma í Kaplakrika og mæta FH.

„Mér líst vel á það verkefni. Mér hefur liðið vel í Hafnarfirði og bý meðal annars þar. Það er gaman að fara þangað og vonandi náum við góðum úrslitum.”

Óli sagði að lokum að þetta væri mjög þýðingarmikill sigur og það væri mjög gott að fá Kristin Frey og Sigurð Egil aftur inn í liðið.

„Auðvitað erum við búnir að vera bíða eftir okkar fyrsta sigri og það hefur verið svolítið ströggl á okkur en við vorum duglegir í dag og uppskárum samkvæmt því. Það er frábært að fá Kristin og Sigga inn í liðið, þeir hjálpa okkur mikið,” sagði Óli að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×