Íslenski boltinn

Gústi Gylfa: Þetta var bara sanngjarnt í dag

Guðlaugur Valgeirsson skrifar
Ágúst Gylfa sótti þrjú stig á Hlíðarenda
Ágúst Gylfa sótti þrjú stig á Hlíðarenda
Ágúst Þór Gylfason þjálfari Breiðabliks var sáttur eftir sigur sinna manna gegn Íslandsmeisturum Vals en hann sagði vinnuframlag sinna manna hafi gert útslagið í kvöld.

 

„Vinnuframlag leikmanna gerði útslagið í kvöld. Við komum hingað með mikið sjálfstraust og þrýstum vel á Valsarana og fengum 2-3 mjög góð færi og vorum í rauninni óheppnir að ná ekki að skora í fyrri hálfleik.”

 

„Ætluðum svo að halda uppteknum hætti í síðari hálfleik og gerðum það, héldum góðri pressu og unnum flest návígi og klárum þetta með góðu marki. Geggjuð 3 stig á mjög erfiðum útivelli. Valsarar eru auðvitað í öngum sínum og þetta var bara sanngjarnt í dag.”

 

Gústi sagðist ekki hafa haft neinar miklar áhyggjur af því hversu illa hans mönnum gekk í dauðafærunum, þá sérstaklega í fyrri hálfleik.

 

„Nei í rauninni ekki. Mér fannst einhvern veginn alltaf eins og þetta myndi enda á marki hjá okkur. Valsararnir sköpuðu sér ekki mikið en mér fannst við bara flottir í kvöld og gríðarlega mikilvæg 3 stig.”

 

Hann sagði að þeir væru ekkert að pæla í Valsmönnum þrátt fyrir að þeir séu að skilja þá 9 stigum á eftir sér og í fallbaráttu.

 

„Við erum ekkert að hugsa um þá. Við erum bara að elta Skagamenn sem eru á toppnum.”

 

Blikar eiga erfiðan bikarleik framundan en þeir mæta þá HK í nágrannaslag.

 

„Við þurfum að spila betur en við gerðum í deildinni gegn þeim. Við þurfum að halda uppteknum hætti frá því í dag og taka það með okkur í leikinn gegn HK og þá hef ég engar áhyggjur af þeim leik,” sagði Gústi Gylfa í lokin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×