Íslenski boltinn

Pepsi Max-mörk kvenna: Furðuðu sig á fjarþjálfun Jóns Óla

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Það var heldur einmanalegt hjá Jóni Óla Daníelssyni, þjálfara ÍBV, í stúkunni á Meistaravöllum.
Það var heldur einmanalegt hjá Jóni Óla Daníelssyni, þjálfara ÍBV, í stúkunni á Meistaravöllum. mynd/stöð2sport
Sérfræðingar Pepsi Max-marka kvenna furðuðu sig á því að Jón Óli Daníelsson, þjálfari ÍBV, hafi verið uppi í stúku á meðan leik liðsins gegn KR á þriðjudaginn stóð. KR vann leikinn, 1-2.

Jón Óli var ekki skráður á leikskýrslu og fylgist með leiknum úr stúkunni á Meistaravöllum. Hann í sambandi við sína aðstoðarmenn í gegnum síma.

„Ég hlustaði á viðtal við Jón Óla þar sem hann útskýrði þetta. Þegar hann var að aðstoða Kristján Guðmundsson [með karlalið ÍBV] að leikgreina var hann uppi í stúku og fannst hann sjá leikinn betur þar,“ sagði Mist Rúnarsdóttir í Pepsi Max-mörkum kvenna í gær.

„En þegar þú ert aðalþjálfari er hlutverkið allt annað. Þú þarft að vera í sambandi við liðið þitt og í góðri tengingu til að gefa orku frá þér og stýra. Hann gerir það klárlega ekki einn í kaldri stúkunni.“

Ásthildur Helgadóttir tók í sama streng og Mist og botnaði lítið í þessari þjálfunaraðferð Jóns Óla.

„Mér finnst þetta mjög undarlegt,“ sagði Ásthildur. „Það er líka bara mikilvægt að hann kalli inn á hvetjandi skilaboð eða eitthvað sem má betur fara.“

ÍBV hefur tapað þremur leikjum í röð og er í 8. sæti Pepsi Max-deildar kvenna eftir fjórar umferðir.

Innslagið í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Pepsi Max-mörk kvenna: Fjarþjálfun Jóns Óla

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×