Íslenski boltinn

Björgvin dæmdur í fimm leikja bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Stefánsson.
Björgvin Stefánsson. Fréttablaðið/Sigtryggur
Björgvin Stefánsson missir af næstu fimm leikjum með KR í Pepsi Max deildinni í fótbolta en Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ kvað í dag upp úrskurð sinn í máli KSÍ gegn Björgvini Stefánssyni vegna ummæla sem hann lét falla sem lýsandi í leik Hauka og Þrótta í Inkasso deild karla.

Björgvin er dæmdur í þetta bann fyrir notkun rasískra ummæla. Björgvin var fljótur að bregðast við með því að biðjast afsökunar sama kvöld og Knattspyrnudeild Hauka sendi líka strax frá sér yfirlýsingu. Hann sleppur hins vegar ekki við langt bann.

Refsingin bitnar bæði á KR og Haukum. KR missir framherja sinn í fimm leiki en Haukarnir þurfa að borga hundrað þúsund krónur í sekt.

Björgvin sjálfur er líka í banni hjá báðum félögum. Hann má ekki spila með Haukum og má ekki koma á Ásvelli á meðan hann tekur út bannið með KR.

„Stutt í villimannseðlið“

„Þetta er það sem ég er alltaf að segja. Það er svo stutt í villimannseðlið hjá svarta manninum,“ sagði Björgvin Stefánsson í lýsingunni á Haukar TV en svarti maðurinn sem hann talaði um er Archie Nkumu, leikmann Þróttar.

Sindri Hjartarson vakti athygli á ummælunum á Twitter.

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ tók málið fyrir þann 28. maí þar sem ákveðið var að gefa Björgvini og forsvarsmönnum knattspyrnudeilda KR og Hauka kost á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu. Frestur var veittur fram á hádegi 3. júní til að skila athugasemdum og andmælum. Gögn bárust frá Knattspyrnudeild KR og Knattspyrnudeild Hauka.



Missir af sex leikjum

Aga- og úrskurðarnefnd tók síðan málið fyrir á fundi þriðjudaginn 4. júní og kvað upp neðangreindan úrskurð á fundi sínum fimmtudaginn 6. júní.

„Björgvin Stefánsson skal sæta leikbanni í fimm leiki í keppnum á vegum KSÍ og tekur bannið gildi nú þegar. Auk þess sætir Björgvin banni frá leikvelli Hauka á Ásvöllum á meðan leikbannið varir. Knattspyrnudeild Hauka skal sæta sekt að upphæð kr. 100.000 til KSÍ.“

Næstu fimm deildarleikir KR eru á móti ÍA á útivelli, Val á heimavelli, FH á útivelli, Breiðabliki á heimavelli og ÍBV á útivelli.  Björgvin tekur auk þess út leikbann í bikarleik á móti Njarðvík vegna tveggja gulra spjalda.

Hér má sjá allan úrskurðinn.


Tengdar fréttir

Úrskurða í máli Björgvins í dag

Aganefnd KSÍ mun í dag tilkynna hvort Björgvin Stefánsson, framherji KR, fari í leikbann fyrir rasísk ummæli sem hann lét falla við að lýsa leik Hauka og Þróttar á dögunum. Björgvin var í gær dæmdur í eins leiks bann í Mjólkurbikarnum vegna tveggja gulra spjalda og missir hann því af leik KR og Njarðvíkur í bikarnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×