Hælisleitandi sem safnað hafði sýru úr rafgeymum fyrr í vor í búsetuúrræði Útlendingastofnunar á Ásbrú kvaðst ætla að nota sýruna til þess að losa stíflu.
Morgunblaðið segist hafa áreiðanlegar heimildir fyrir þessu samkvæmt frétt blaðsins í dag en í gær kom fram á vef blaðsins að lögreglan hefði ekki náð að kanna málið vegna anna.
Bjarney S. Annelsdóttir, yfirlögregluþjónn á Suðurnesjum, segist telja það ólíklegt að söfnun sýrunnar hafi verið til þess að skaða aðra.
Hún segir lögregluna á Suðurnesjum aldrei hafa verið kallaða að málinu með beinum hætti heldur fengið óformlegar upplýsingar um það frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Ekki hefði komið fram hver ætti í hlut en lögreglan á Suðurnesjum var upplýst um það að sýran hefði verið tekin af manninum og fjarlægð.
Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir í gær náði Vísir ekki tali af neinum hjá lögreglunni á Suðurnesjum sem veitt gat nánari upplýsingar um málið.
